Fatlaðir unglingar eru flestir nýbúnir að fá svör um skólavist í framhaldsskóla næsta haust en sum eru ekki enn komin með skólavist. Þeir skólameistarar skóla sem taka við fötluðum nemendum og Fréttablaðið náði tali af sögðu það vera á milli 10–20 sem eru ekki komin með skólavist.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði að þau væru 30 í ræðu sinni á Alþingi. „Afsökunin er að árgangarnir séu allt of fjölmennir. Það er búið að vita þetta í 16 ár. Hvar hafa ráðherrarnir verið?“ spurði Þorgerður og beindi orðum sínum til Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra. Þorgerður var menntamálaráðherra á árunum 2003–2009.

„Afsökunin er að árgangarnir séu allt of fjölmennir. Það er búið að vita þetta í 16 ár. Hvar hafa ráðherrarnir verið?“

Unglingar með þroskafrávik sækja um skólavist í febrúar og eru einhverjir nýbúnir að fá svör en önnur bíða enn.

Þeir unglingar sem eru með Downs-heilkenni geta til dæmis ekki gengið að því vísu að fá skólavist í þeim skólum sem hentar þeirra getustigi né þar sem vinir þeirra eru. „Okkur vantar fleiri skóla til að taka við nemum á sérnámsbrautir. Það eru einhverjir nemendur með fötlun enn án skólapláss á sérnámsbrautir,“ segir Inga Guðrún Kristjánsdóttir, formaður Félags áhugafólks um Downs-heilkenni.

„Okkur vantar fleiri skóla til að taka við nemum á sérnámsbrautir.“

Benedikta Birgisdóttir, sem situr í stjórn Félags áhugafólks um Downs-heilkenni, skrifaði harðorðan pistil á Facebook sem vakti mikla athygli. Þar kom fram að sonur hennar, sem er með Downs-heilkenni, hafi fengið inngöngu í Fjölbrautaskólann við Ármúla, sem hentar honum ekki, en drengurinn vildi fara í annaðhvort FB eða Borgarholtsskóla. Þar séu vinir hans. Benedikta fékk svar um skólavist sonar síns á miðvikudag.

Inga Guðrún segir að það sé skiljanlegt áfall ef börnin fá ekki að elta vini sína og hafi getuna til þess að vera í annaðhvort FB eða Borgarholtsskóla. „Það er áfall fyrir foreldra en sorgin er mest hjá börnunum,“ segir hún.

Skólakerfið eigi að mæta þörfum allra

Hún bendir á að það sé hennar vilji að skólakerfið mæti þörfum allra, hvort sem það eru fatlaðir eða ófatlaðir unglingar. „Við viljum að skólakerfið mæti okkar börnum þar sem þau eru. Það á að vera hægt að búa til skólakerfi fyrir þau eins og öll önnur börn, fötluð sem ófötluð.

Reyndar er það svo að við sjáum í þeim skýrslum og öðru þar sem er verið að meta árangur og annað að skólakerfið er í vandræðum að mæta börnum almennt á margan hátt – þótt það sé ekki algilt – en sem betur fer er líka margt sem gengur vel. Við verðum að læra það betur og betur að koma vel til móts við þarfir barna og unglinga með fatlanir,“ segir Inga.

Þorgerður Katrín benti á í ræðustól Alþingis að fötluð börn hefðu gleymst í áætlun ríkisstjórnarinnar. Börnin hefðu verið fötluð frá fæðingu og það ætti ekki að koma á óvart þegar svo stór árgangur væri að koma inn í kerfið. Það hafi verið vitað í 16 ár.