Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir að helsta á­hyggju­efnið þessa stundina er að fjöldi far­þega sem koma til landsins sé að fara yfir sýna­töku­getu.

„Það má segja að á undan­förnum dögum hefur fjöldi far­þega farið yfir greiningar­getuna og stjórn­völd eru þessa stundina að skoða leiðir hvernig tak­marka megi fjölda ferða­manna til landsins þannig að við getum annað þeim fjölda ferða­manna sem við þurfum að skima,“ sagði Þór­ólfur á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag.

Hann sagði hins vegar að ekki væri mikið um virkt smit hjá ferða­mönnum sem hafa verið að koma til landsins. Í gær var tekið sýni frá um 2200 far­þegum en alls komu 3400 til landsins. Enginn þeirra hafi verið með stað­fest smit en tveir eru í bið­stöðu.

Frá því að landa­mæra­skimun hófst hafa tæplega 110 þúsund far­þegar komið til landsins og hafa verið tekin sýni frá um 70 þúsund far­þegum. Einungis 26 ein­staklingar hafa verið með virkt smit.

Ekki nauðsynlegt að fara í harðari aðgerðir

Þór­ólfur sagði ekki nauð­syn­legt að grípa til harðari að­gerða á þessari stundu en gripið var til fyrir tæpri viku. „Við erum bara í start­holunum og ef á­standið versnar eða breytist á ein­hvern hátt þá þurfum við að endur­skoða það sem við höfum verið að gera,“ sagði Þór­ólfur.

Hann sagði einnig á­nægju­legt að um þessar mundir væri ekki mikið um al­var­leg veikindi en það gæti hins vegar komið upp síðar og því þarf að vera á varð­bergi.

Undir 0,1 prósent smitaðir í sam­fé­laginu

Ís­lensk erfða­greining hefur séð um skimanir frá 29. júlí hér­lendis og hefur fyrir­tækið skimað um 3900 ein­staklingar frá þeim tíma. Einungis þrír ein­staklingar hafa greinst já­kvæðir og benti Þór­ólfur á að það sé tölu­vert undir núll komma einu prósenti, þannig hlut­fall smitaðra í sam­fé­laginu er afar lágt.

Þór­ólfur benti þó á að það væri allt­of snemmt að fara fagna árangri þrátt fyrir að við værum að ná betri tökum á far­aldrinum síðustu daga. Hann hvatti alla til að virða tveggja metra regluna og fara eftir sótt­varna­reglum.