Danir halda á kjörstaði í dag til að kjósa nýtt þing og nýja ríkisstjórn. Kosningarnar eru sagðar vera mjög spennandi en hvorki rauða blokkin sem hallar til vinstri, né bláa blokkin sem hallar til hægri hafa meirihluta samkvæmt skoðanakönnunum.
Lars Løkke Rasmussen fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur og flokkur hans, Hófsemdarflokkurinn eða Moderaterne, eru því líklegast í lykilstöðu eftir kosningarnar, ef skoðanakannanir reynast réttar. Flokkurinn stendur utan blokka og því munu blokkirnar því líklegast þurfa að treysta á Hófsemdarflokkinn við myndun ríkisstjórnar.
Til þess að hafa meirihluta á þinginu verður ríkisstjórnin að hafa 90 þingmenn, en þingið samanstendur af 179 þingmönnum.
Innanríkismál hafa litað kosningabaráttuna, þar á meðal má nefna skattalækkanir, mönnun í heilbrigðisgeiranum, fjármagnsaðstoð vegna verðbólgu og orkuverð vegna stríðsins í Úkraínu.
Aðdragandi þess að kosið er nú, ári áður en kjörtímabilinu átti að ljúka, tengist ákvörðun Mette Frederiksen forsætisráðherra um að láta lóga öllum minkum í Danmörku árið 2020 eftir að kórónaveirusmit greindist í nokkrum minkabúum. Síðar kom í ljós að þessi fjöldalógun hefði ekki staðist lög og stóð ríkisstjórnin höllum fæti eftir það.

Milljón kjósendur óákveðnir sólarhring fyrir kosningar
Kjörstaðir opnuðu klukkan átta í morgun á staðartíma og þeim verður lokað klukkan átta í kvöld, klukkan sjö að íslenskum tíma. Þrátt fyrir að Frederiksen hafi einungis boðað til kosninga þann 5. október síðastliðinn segir stjórnmálaskýrandi danska ríkisútvarpsins, DR, Christine Cordsen, kosningabaráttuna hafa verið lengri en það.
„Í rauninni entist hún í þrjá mánuði, síðan þingið kom saman eftir sumarfrí í ágúst,“ segir hún við DR. „En jafnvel þótt mjög löng kosningabarátta líði á enda, þarf dramatíkin fyrst að hefjast.“
Crodsen segir margt óljóst þegar gengið er til kosninga. Óvenjumargir kjósendur voru ekki búnir að ákveða sig hvað þeir ætluðu að kjósa þegar skoðanakannanir voru framkvæmdar í gær, einungis sólarhring fyrir kosningar. Hún segir allt að milljón kjósendur séu óákveðnir en fjórar milljónir eru kjörgengar í Danmörku.
„Það er í raun mesta drama kosningabaráttunnar að við höfum einfaldlega ekki hugmynd um hvaða forsætisráðherra við fáum þegar atkvæði eru talin, eða hvaða ríkisstjórn er hægt að mynda,“ segir Cordsen.
Vill mynda ríkisstjórn beggja megin við miðju
Þegar Metta Frederiksen boðaði kosningar tilkynnti hún að flokkur hennar, danski Jafnaðarmannaflokkurinn, stefndi á að mynda breiða ríkisstjórn sem sett yrði saman af flokkum beggja megin við miðjuna í dönskum stjórnmálum, óháð því hvort rauða blokkin næði meirihluta.
Cordsen segir Frederiksen hafa sent skýr skilaboð í sjónvarpskappræðum sem sýndar voru í gærkvöldi. Þá sé ljóst að Frederiksen muni reyna að leiða næstu ríkisstjórn, ef henni tekst að fá nægan stuðning.
Lars Løkke í lykilstöðu
Lars Løkke Rasmussen var forsætisráðherra Danmerkur á árunum 2009 til 2013 og 2015 til 2019. Þrátt fyrir að hafa stofnað flokkinn fyrr á þessu ári mælist flokkurinn með um 10 prósenta fylgi. Bæði hann og Frederiksen hafa daðrað við samstarf flokka þeirra tveggja.
„Ég hef verið til nógu lengi til að vita að það er ekki víst að skoðanakannanir séu réttar. Ég held við verðum nálægt því samt,“ sagði Rasmussen á kjörstað í morgun.
