56 sjúklingar liggja nú inni á Landspítala vegna COVID-19 og hefur þeim fjölgað um þrjátíu frá því í gær. Þá er einn á gjörgæsludeild þar sem sjúklingum hefur fækkað um tvo. Er sá í öndunarvél.

120 sjúklingar hafa nú verið lagðir inn á spítalann vegna COVID-19 í þriðju bylgju faraldursins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd spítalans sem er nú kominn á neyðarstig.

Eins og fram hefur komið greindist stór hópsýking á Landakotsspítala fyrir helgi en í hádeginu höfðu hátt í níutíu tilfelli verið rakin til hópsmitsins og ekki enn búið að ná utan um sýkinguna.

Að sögn Landspítala fara í dag fram áframhaldandi skimanir á starfsfólki á Landakoti og víðar. Þá tók farsóttarnefnd ákvörðun um það í gær að skima alla sjúklinga sem eru fluttir frá Landspítala á aðrar stofnanir.

Þó er ekki talið nauðsynlegt að einangra sjúklinga á meðan beðið er eftir niðurstöðu þar sem um er að ræða skimun einkennalausra.

Ef einkenni séu til staðar verði sjúklingar þó eftir sem áður settir í einangrun á meðan beðið er niðurstöðu. Sjúklingar sem eru fluttir milli Fossvogs og Hringbrautar verða ekki skimaðir.

1.031 sjúklingur er nú í eftirliti COVID-göngudeildar og þar af eru 183 börn. Fjörutíu starfsmenn Landspítala eru í einangrun og 322 í sóttkví. 59 kórónaveirusmit greindust innanlands í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð.