Leiðinda­veður er nú á sunnan­verðu landinu sem hefur valdið öku­­mönnum tals­verðum erfið­­leikum enda krapi og hálka víða. Gular við­varanir vegna veðursins eru í gildi á höfuð­­borgar­­svæðinu, Suður­landi, Suð­austur­landi og á Vest­fjörðum.

Hátt í tuttugu bílar hafa farið út af þjóð­vegi eitt við Reynis­fjall að því er segir í frétt RÚV. Þar er rætt við Bryn­dísi Harðar­dóttur en hún og fjöl­skylda hennar reka dráttar­bíla­þjónustu í Vík. Bryn­dís segir þau hafa haft í nægu að snúast við að veita öku­mönnum að­stoð það sem af er degi.

„Hann er búinn að vera anna­samur. Það er búið að vera síðan 9 í morgun, þá fór fyrsti bíllinn út af og það er verið að því enn. Þeir fljóta upp í krapa. Það er svo hvasst, þeir halda þeim ekki inni á veginum og fljóta upp í krapa. Það er stöðugur snjó­mokstur en þeir halda ekki í þannig að það næst ekki að hreinsa það af. Það þyrftu að vera 2 bílar á þessum stutta kafla,“ segir Bryn­dís í sam­tali við RÚV.

Að hennar sögn er aðal­lega um er­lenda ferða­menn að ræða. Þeir telji margir að bílar þeirra séu út­búnir til aksturs í þeim að­stæðum sem nú eru en svo sé oft og tíðum ekki. Vind­hviður á svæðinu hafa farið yfir 30 metra á sekúndu en fylgdar­akstur verður yfir Reynis­fjall í kvöld þar sem um­ferð verður stöðvuð beggja megin fjallsins þangað til fylgdar­bíll mætir á staðinn. Veður fer versnandi eftir því sem líður á kvöldið.

Ekki hefur þó verið óskað að­stoðar björgunar­sveita, enn sem komð er.