Um 2.050 börn eru nú á biðlistum eftir fagþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur, sem er stórfjölgun á fáum árum.

Árið 2018 voru um 400 börn á þessum biðlistum. Það merkir að meira en fimmfalt fleiri börn bíða nú eftir þjónustu borgarinnar en fyrir tæpum fimm árum.

Þessum upplýsingum hefur borgarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir viðað að sér, en hún þekkir vel til málaflokksins eftir að hafa starfað í tíu ár sem skólasálfræðingur í Hafnarfirði.

„Það er ekki hægt að réttlæta svona þróun með fólksfjölgun og faraldri,“ segir Kolbrún, „og í mínum huga er ekki til nein afsökun fyrir því að láta börnin bíða lon og don.“

Í nýlegu svari embættismanna borgarinnar til Kolbrúnar um skólaþjónustu kemur fram að meðalbiðtími eftir henni hafi verið að lengjast á umræddu árabili – og ástæðuna megi rekja til mikillar fjölgunar erinda á síðustu árum.

Í svaribnu er tekið sem dæmi að á milli áranna 2020 og 2021 hafi beiðnum um aðstoð fjölgað um 30 prósent.

„Ég hef margsinnis bókað í borgarstjórn að við erum að leika okkur að eldinum,“ segir Kolbrún og bætir við: „Hvað halda menn að barn sem er búið að bíða lengi eftir hjálp hugsi með sér? Það hlýtur að spyrja: Ætlar enginn að hjálpa mér?“ segir Kolbrún enn fremur.

Að sögn Kolbrúnar eru börnin fyrst og fremst að bíða eftir sálfræðiaðstoð, einkum vegna kvíða, eineltis, námserfiðleika, málhelti, félagsfælni og atferlisþátta

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi.
Fréttablaðið/ERNIR

„Þarna innan um eru börn sem þora einfaldlega ekki í skólann svo dögum skiptir,“ segir Kolbrún. Og það sé ekkert annað í stöðunni en að taka á þessum vanda af metnaði.

„Við erum að tala um þjónustu við börn í borg sem á tyllidögum segist stefna að því að verða barnvænasta borgin á heimsvísu. Sú borg þarf að taka sér tak,“ segir Kolbrún

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður Skóla- og frístundaráðs borgarinnar, segir vanda skólabarna sem þurfa á umræddri þjónustu að halda vera fjölþættari og flóknari en áður.

„Við erum að færa skólaþjónustuna út í hverfin til að bæta hana – og sú breyting, ásamt fjölgun skólabarna, ekki síst barna af erlendum uppruna, hefur gert það að verkum að okkur hefur reynst erfiðara um vik að stytta biðlistana,“ segir Árelía Eydís.

Ekki bætir úr skák í þessum efnum að skortur er á sálfræðingum á höfuðborgarsvæðinu og raunar víðar um land. Það staðfestir Tryggvi Guðjón Ingason, formaður Sálfræðingafélags Íslands.

„Það vantar fjármagn í þessa þjónustu og fyrir vikið er flótti úr stéttinni. Sálfræðingar eru farnir að leita í önnur störf vegna álags og fjársveltis,“ segir Tryggvi.