Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hafa 219 manns látið lífið vegna Covid-19. Ýmist lést fólk af völdum sýkingarinnar eða hún var meðvirkandi þáttur.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir minnir fólk á að nálgast umræðuna af virðingu og samkennd að því er fram kemur á vef Landlæknis.

Hún segir fjölda andláta vegna Covid-19 hér á landi lágan í alþjóðlegum samanburði miðað við mannfjölda.

Samkvæmt Landlækni er andlát flokkað sem Covid-19 andlát ef viðkomandi lést á innan við einum mánuði eftir smit og læknir skráir Covid-19 sem orsök eða sem meðvirkandi þátt á dánarvottorði.

Af 219 andlátum voru 180 á þessu ári en á tímabilinu febrúar til apríl létust 129 manns og 25 í júlí.

„Líkur eru á að fjöldi andláta árið 2022 sé afleiðing af mikilli útbreiðslu á Covid-19 á þessu tímabili enda gengu þá yfir tvær stærstu bylgjur Covid-19 frá upphafi,“ segir jafnframt á vef Landlæknis.