Fjöldatakmarkanir munu áfram miðast við 500 manns að minnsta kosti til 26. júlí. Heilbrigðisráðherra ákvað í dag að tillögu sóttvarnarlæknis að framlengja auglýsingu sína um takmarkanir á samkomum óbreytta um þrjár vikur. Opnunartími veitinga- og skemmtistaða verður einnig óbreyttur til 26. júlí.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í síðustu viku að sér þætti æskilegt að auka fjölda þeirra sem mættu koma saman upp í 2.000 manns frá og með 13. júlí, fjórum vikum eftir síðustu rýmkun takmarkananna. Síðar greindi hann frá því að í ljósi fjölda nýrra smita á landinu teldi hann eðlilegt að fresta þeim afléttingum.
Heilbrigðisráðherra féllst í dag á þær tillögur hans og er því ljóst að takmarkanirnar sem miða við 500 manns gildi að minnsta kosti til 26. júlí. Þá verða þær búnar að vera í gildi í sex vikur. Einnig var tekin ákvörðun um að halda opnunartíma veitinga- og skemmtistaða óbreyttum og mega staðirnir aðeins hafa opið til klukkan 23 á kvöldin næstu þrjár vikurnar.
Frá því að skimun hófst við landamærin þann 15. júní síðastliðinn hafa um 22 þúsund ferðamenn komið til landsins og sýni verið tekin hjá um 16 þúsund. Virk smit hafa greinst hjá sjö einstaklingum og rúmlega 400 hafa þurft að fara í sóttkví eftir smitrakningu.
„Sóttvarnalæknir segir um ákveðið bakslag að ræða sem hafi ekki verið óviðbúið en að lágmarka þurfi áhættuna á því að faraldurinn nái sér á strik hér á landi. Tillaga sóttvarnalæknis um að ekki verði slakað frekar á reglum um samkomubann að sinni byggist á þessu, auk þess sem hann leggur áherslu á að efla fræðslu um einstaklingsbundnar sýkingavarnir,“ segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.