Mörg hundruð þúsund svartklæddir mótmælendur hafa fyllt götur miðbæjar Hong Kong til að krefjast afsagnar Carrie Lam, leiðtoga Hong Kong. Lam tilkynnt í gær að umdeildu frumvarpi um framsal glæpamanna til Kína yrði frestað, en mótmælendur ætla ekki að hætta fyrr en það er fellt niður. Reuters segir frá.

Margir mótmæltu ofbeldi lögreglunnar.
NORDICPHOTOS/GETTY

Mótmælendurnir, sem eru fólk á öllum aldri, báru hvít blóm til að syrgja mótmælanda sem lést af slysförum í gær og voru meðal annars með borða sem á stóð „ekki skjóta, við erum Hong Kong-búar“ til að freista þess að koma í veg fyrir sama ofbeldi og á miðvikudag, þegar lögregla skaut gúmmíkúlum og beitti táragasi. Margir eru mjög reiðir lögreglu vegna viðbragða hennar við mótmælunum, en yfir sjötíu særðust í ofbeldinu.

Carrie Lam tilkynnti í gær að afgreiðslu frumvarpsins hefði verið frestað.
NORDICPHOTOS/GETTY

Lam frestaði frumvarpinu í ótilgreindan tíma í gær vegna mótmælanna og sagðist sorgmædd yfir ástandinu, en baðst ekki afsökunar. Í samtali við Reuters sögðu mótmælendur að þeir telji að Lam hafi aðeins frestað frumvarpinu um stund til að reyna að róa þau og að henni sé ekki treystandi lengur.

Lam nýtur enn stuðnings frá kínversku ríkisstjórninni, en kínversk yfirvöld hafa unnið hörðum höndum að því að koma í veg fyrir að fréttir af mómælunum berist til meginlandsins, af ótta við að fólk þar gæti fylgt þeirra fordæmi.