Rauði krossinn hefur opnað fjölda­hjálpar­stöð í Klé­bergs­skóla á Kjalar­nesi þar sem fólk getur leitað sér að­stoðar. Við­bragðs­hópur Rauða krossins var kallaður út síð­degis vegna al­var­legs um­ferðar­slyss á Vestur­lands­vegi.

„Við erum að opna stöðina þar sem fólk hefur orðið inn­lyksa vegna lokunar á veginum og einnig til að veit vitnum að slysinu sál­rænan stuðning,“ segir Björg Kjartans­dóttir, sviðs­stjóri fjár­öflunar- og kynningar­mála Rauða krossins, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Þrír fluttir á bráða­mót­töku

Al­var­­legt um­­­ferðar­­slys varð á Vestur­lands­vegi á Kjalar­nesi á fjórða tímanum í dag þegar tvö mótor­hjól og hús­bíll lentu í á­rekstri. Þrír voru fluttir al­var­­lega slasaðir á bráða­­mót­töku. Ekki er vitað hver líðan þeirra er að svo stöddu.

„Það er verk­efni okkar Rauða krossins að sinna slíku í at­burðum sem þessum.“ Fólk sem er inn­lyksa í bílum sínum verður leið­beint inn á fjölda­hjálpar­stöðina í Klé­bergs­skóla. „Þar tekur við­bragð­steymi Rauða krossins á móti fólki og veitir sál­ræna að­stoð til þeirra sem þess óska,“ segir Björg.

Enn liggur ekki fyrir hversu lengi vegurinn verður lokaður en í sam­tali við Frétta­blaðið sagði yfir­lög­reglu­stjóri að búist væri við að vegurinn yrði ekki opnaður fyrr en eftir eina til tvær klukku­stundir.