Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri yfir móttöku Úkraínumanna, segir að það hafi verið forðast í lengstu lög að opna fjöldahjálparstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi, en að það hafi verið nauðsynlegt vegna þeirra stöðu sem er komin upp í húsnæðismálum flóttafólks.
„Stefnan er sú að fólk sé ekki lengur í slíkum fjöldahjálparstöðvum en í þrjá daga. Við aftur á móti getum ekki lofað því að svo verði niðurstaðan,“ segir Gylfi Þór. Hann segir að meðan flóttafólk er í fjöldahjálparstöðinni fái hann og hans teymi tíma til þess að reyna útvega fólki pláss í skammtímaúrræði. „En ef ekkert pláss er að finna, þá munum við hugsanlega neyðast til að hafa fólk lengur en í þrjá daga þarna, þótt að stefnan sé sú að það verði ekki þannig,“ segir Gylfi.
Af hverju þrír dagar?
„Þessir þrír dagar er mat Rauða krossins á þeim aðbúnaði sem þeir hafa upp á að bjóða. Hugsanlega þurfum við þá annaðhvort að bæta þann aðbúnað með einhverjum hætti. Þetta eru beddar sem fólkið fær til að gista á og hugsanlega verður það bara að vera þannig í einhvern tíma, en við vonum að svo verði ekki,“ segir Gylfi, sem telur að þessar aðstæður séu ekki æskilegar til lengri tíma.
Stjórnvöld kaupa sér tíma
„Við aðstoðuðum Rauða krossinum að finna húsnæðið og það er mikil ánægja með það. Þarna eru herbergi þar sem fólk getur lokað að sér og fengið smá næði. En sannarlega væri hægt að finna betra húsnæði og það er það sem við erum að reyna. Staðan í dag er bara sú að allt húsnæði sem við höfum verið að finna á þessu ári, það er á þrotum. Við þurfum að ná frekari samvinnu við sveitarfélögin til þess að koma því flæði í gang aftur,“ segir Gylfi.
Gylfi segir að með því að opna fjöldahjálparstöð séu stjórnvöld að kaupa sér tíma.
„En um leið og við opnum eina fjöldahjálparstöð, þá er hætta á því að hún verði opin lengur en við viljum. Eins líka að hún fyllist fljótt og þá þurfum við hugsanlega að opna fleiri,“ segir Gylfi.

Fyrsta fjöldahjálparstöðin fyrir flóttafólk
Í gær var í fyrsta sinn opnuð fjöldahjálparstöð hér á landi fyrir flóttafólk, en Rauði krossinn á Íslandi opnaði hana í gær, að beiðni stjórnvalda. Í tilkynningu frá Rauða krossinum kemur fram að það sé gert vegna mikillar fjölgunar á komu flóttafólks til landsins, meðal annars vegna átakanna í Úkraínu, samhliða skorti á íbúðarhúsnæði fyrir flóttafólk.