Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra segir það ekki vonbrigði að stjórnvöld hafi þurft að óska þess að Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparstöð fyrir flóttafólk en að það væru vonbrigði ef ekki væri hægt að taka á móti fólki í neyð.
„Það er grundvallaratriðið í þessu. Fjöldahjálparstöð, þó svo að það sé eitthvað sem við vildum forðast að þurfa að opna, er einn hlekkurinn í því að taka á móti flóttafólki eins og er,“ segir hann og að vonir standi til þess að aðeins sé um tímabundið úrræði sé að ræða. Fjöldahjálparstöðin var opnuð í gær en þar mun fólki geta dvalið allt að þrjá daga áður en þeim er komið í annað úrræði á vegum Vinnumálastofnunar eða sveitarfélaganna. Ríkið greiðir Rauða krossinum allan útlagðan kostnað vegna verkefnisins en endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir.
„Það skiptir máli að hafa þetta úrræði og að það sé gert eins vel og við getum. Ég veit að Rauði krossinn mun standa sig vel í því.“
Þetta eru kannski ekki frábærar aðstæður. Viljum við bjóða fólki upp á þessar aðstæður?
„Við viljum ekki að fólk sé lengi í þessum aðstæðum. Gleymum því ekki að fólk er að koma úr mikilli neyð og við viljum frekar geta tekið á móti fólkinu en ekki. Að vera tímabundið í þessum aðstæðum get ég sagt að sé ásættanlegt þó það sé kannski ekki ákjósanlegt.“
Húsnæðisskortur
Hann segir að þetta sé lausn sem hafi verið fundin á sama tíma og mikill fjöldi fólks er að leita til landsins og við glímum við húsnæðisskort. Spurður hvort að hann telji að það geti staðist að fólk dvelji ekki lengur en þrjá daga í úrræðinu segir Guðmundur að það verði að koma í ljós. Það sem geti haft áhrif á dvalartíma sé fjöldi þeirra sem kemur hverju sinni.
Í júní var greint frá því að 40 sveitarfélög hefðu lýst yfir áhuga á að skrifa undir samning um ríkið um að taka á móti fleiri flóttamönnum og veita þeim þjónustu í samræmi við ákvæði samningsins. Guðmundur Ingi segir að enn sé mikill áhugi og að það séu enn viðræður í gangi við stóran hluta þeirra. Enn hafi ekkert sveitarfélag skrifað undir samning en að það sé í ferli innan stjórnsýslu nokkurra þeirra.
Ég er ósammála því að við sendum flóttafólk til annarra ríkja.
„Með þessum samningi er ríkið að styðja við sveitarfélögin svo þau geti betur tekist á við þau aukaverkefni sem hljótast af þjónustu við flóttafólk en það er alltaf einhver umframþjónusta,“ segir Guðmundur Ingi.
Spurður út í orð formanns Miðflokksins á Vísi í dag um að úrræðið verði ekki tímabundið og að það ætti að senda flóttafólk til Rúanda segir Guðmundur Ingi að hann geti ekki tekið undir orð Sigmundar.
„Ég er ósammála því að við sendum flóttafólk til annarra ríkja. Ég tel að við eigum að taka á móti flóttafólki hér heima og það fái þá málsmeðferð sem það á rétt á samkvæmt alþjóðalögum og íslenskum lögum.“