Guð­mundur Ingi Guð­brands­son fé­lags- og vinnu­markaðs­ráð­herra segir það ekki von­brigði að stjórn­völd hafi þurft að óska þess að Rauði krossinn opnaði fjölda­hjálpar­stöð fyrir flótta­fólk en að það væru von­brigði ef ekki væri hægt að taka á móti fólki í neyð.

„Það er grund­vallar­at­riðið í þessu. Fjölda­hjálpar­stöð, þó svo að það sé eitt­hvað sem við vildum forðast að þurfa að opna, er einn hlekkurinn í því að taka á móti flótta­fólki eins og er,“ segir hann og að vonir standi til þess að að­eins sé um tíma­bundið úr­ræði sé að ræða. Fjölda­hjálpar­stöðin var opnuð í gær en þar mun fólki geta dvalið allt að þrjá daga áður en þeim er komið í annað úr­ræði á vegum Vinnu­mála­stofnunar eða sveitar­fé­laganna. Ríkið greiðir Rauða krossinum allan út­lagðan kostnað vegna verk­efnisins en endan­legur kostnaður liggur ekki fyrir.

„Það skiptir máli að hafa þetta úr­ræði og að það sé gert eins vel og við getum. Ég veit að Rauði krossinn mun standa sig vel í því.“

Þetta eru kannski ekki frá­bærar að­stæður. Viljum við bjóða fólki upp á þessar að­stæður?

„Við viljum ekki að fólk sé lengi í þessum að­stæðum. Gleymum því ekki að fólk er að koma úr mikilli neyð og við viljum frekar geta tekið á móti fólkinu en ekki. Að vera tíma­bundið í þessum að­stæðum get ég sagt að sé á­sættan­legt þó það sé kannski ekki á­kjósan­legt.“

Húsnæðisskortur

Hann segir að þetta sé lausn sem hafi verið fundin á sama tíma og mikill fjöldi fólks er að leita til landsins og við glímum við hús­næðis­skort. Spurður hvort að hann telji að það geti staðist að fólk dvelji ekki lengur en þrjá daga í úr­ræðinu segir Guð­mundur að það verði að koma í ljós. Það sem geti haft á­hrif á dvalar­tíma sé fjöldi þeirra sem kemur hverju sinni.

Í júní var greint frá því að 40 sveitar­fé­lög hefðu lýst yfir á­huga á að skrifa undir samning um ríkið um að taka á móti fleiri flótta­mönnum og veita þeim þjónustu í sam­ræmi við á­kvæði samningsins. Guð­mundur Ingi segir að enn sé mikill á­hugi og að það séu enn við­ræður í gangi við stóran hluta þeirra. Enn hafi ekkert sveitar­fé­lag skrifað undir samning en að það sé í ferli innan stjórn­sýslu nokkurra þeirra.

Ég er ó­sam­mála því að við sendum flótta­fólk til annarra ríkja.

„Með þessum samningi er ríkið að styðja við sveitar­fé­lögin svo þau geti betur tekist á við þau auka­verk­efni sem hljótast af þjónustu við flótta­fólk en það er alltaf ein­hver um­fram­þjónusta,“ segir Guð­mundur Ingi.

Spurður út í orð formanns Mið­flokksins á Vísi í dag um að úr­ræðið verði ekki tíma­bundið og að það ætti að senda flótta­fólk til Rúanda segir Guð­mundur Ingi að hann geti ekki tekið undir orð Sig­mundar.

„Ég er ó­sam­mála því að við sendum flótta­fólk til annarra ríkja. Ég tel að við eigum að taka á móti flótta­fólki hér heima og það fái þá máls­með­ferð sem það á rétt á sam­kvæmt al­þjóða­lögum og ís­lenskum lögum.“