Ekki er vitað hvað olli fjöldadauða svartfugla á Suðausturlandi fyrr í þessum mánuði en Matvælastofnun staðfestir að það sé ekki vegna fuglaflensu.

„Mjög ólíklegt er að um fuglaflensu sé að ræða. Líklegasta skýringin er hungur þótt ekki sé hægt að fullyrða að það sé eina skýringin,“ segir í tilkynningu frá MAST.

Starfs­fólk Náttúru­stofu Austur­lands fann 237 hræjum af svart­fugli í fjöru á Suðausturlandi um miðjan janúar, tók sýni úr þeim og sendi til rannsóknar á Tilraunastöð HÍ að Keldum.

Skæð fuglaflensa gæti hafa borist til Íslands

Skæð fugla­flensu­veiru af gerðinni H5N8 greindist fyrir ári síðan í bæði villtum fuglum og fuglum í haldi víða um Evrópu og MAST fylgist vel með þeirri þróun.

Fuglaflensa af annarri og skæðari gerð, H5N1, greindist nýlega á Nýfundnalandi sem gefur til kynna að veiran hafi borist með farfuglum frá Evrópu sem hafa viðkomu á Íslandi. Fuglaeigendur þurfa að vera viðbúnir því að herða þurfi sóttvarnir á vormánuðum.

„Þeir sem halda alifugla þurfa aftur að búast við því að í vor þurfi að halda alifuglunum í lokuðu gerði undir þaki til að forða þeim frá hugsanlegu fuglaflensusmiti,“ segir MAST.

Litlar líkur eru á að fólk geti smitast af þeim veirum sem finnast í Evrópu en Matvælastofnun hvetur til almennra sóttvarna við handfjötlun villtra fugla og fuglahræja.

Almenningur er þess vegna beðinn um að tilkynna til Matvælastofnunar þegar villtur dauður fugl finnst.