Alls 136 fjöl­skyldur, þar með talin 292 börn, hafa fengið efnis­lega að­stoð hjá Hjálpar­starfi kirkjunnar undan­farna daga. „Að­sóknin er mun meiri núna en í fyrra,“ segir Ás­laug Arn­dal, hjá Hjálpar­starfi kirkjunnar, en á síðasta ári fengum 200 börn efnis­lega að­stoð frá hjálpar­­starfinu í upp­hafi skóla­árs.

Ás­laug segir út­hlutun hafa gengið mjög vel, flesta vanti úti­föt og skóla­töskur fyrir veturinn. „Fólk hefur verið mjög dug­legt að koma með úti­föt og skóla­töskur til okkar svo við eigum nóg fyrir alla. Það er dá­sam­legt hvernig fólk hefur brugðist við og að­sóknin er það mikil að við munum hafa opið aftur á föstu­daginn,“ segir Ás­laug, en opið verður á milli 10 og 12 á morgun.

Spurð að því hvort að hver sem er geti komið og þegið hjálp, segir Ás­laug alla þurfa að veita á­kveðnar per­sónu­upp­lýsingar til að hægt sé að veita hjálpina. „Margir sem eru að koma núna hafa komið til okkar áður svo við þekkjum þeirra að­stæður, en fólk þarf að sýna okkur fram á að börnin sem um ræðir séu þeirra börn og þar fram eftir götunum,“ segir hún.

Ás­laug segir stóran hluta þeirra sem leitað hafi eftir hjálp undan­farið vera flótta­fólk frá Úkraínu. „Bæði það og fólk frá öðrum löndum sem er kannski ekki alveg komið inn í sam­fé­lagið og komið með vinnu og svona en börnin komin í skóla. Svo komu líka margir hingað í flýti og tóku ekki allt sitt dót með, eins og skóla­tösku og vetrar­föt,“ segir Ás­laug.

Áslaug Arndal hjá Hjálparstarfi kirkjunnar segir aðsóknina mun meiri núna en í fyrra. Á síðasta ári hafi 200 börn fengið efnislega aðstoð í upphafi skólaárs.
Mynd/Aðsend

Ás­gerður Jóna Flosa­dóttir, for­maður Fjöl­skyldu­hjálpar Ís­lands, tekur undir orð Ás­laugar og segir að mikið hafi verið að gera undan­farið í Fjöl­skyldu­hjálpinni. Bæði á markaði þeirra, þar sem hægt sé að versla föt á afar lágu verði sem og í matar­út­hlutunum.

„Og ekki bara undan­farið heldur hefur verið mjög mikið að gera allt þetta ár, að­sóknin hefur aldrei verið meiri,“ segir Ás­gerður og tekur dæmi:

„Vana­lega erum við með átta stóra út­hlutunar­daga í mánuði en í ár höfum við út­hlutað mat alla virka daga. Bara í gær á Suður­nesjum út­hlutuðum við mat til 137 heimila,“ segir hún.

Ás­gerður segir að á þeim 26 árum sem hún hafi unnið í þágu fá­tækra hafi hún ekki séð neina breytingu til batnaðar. „Þetta er frekar að verða harðara og harðara. Maður skilur bara ekki hvað pólitíkusarnir eru ró­legir yfir þessu, vanda­málið er risa­stórt og ég er viss um að ráða­menn fái tauga­á­fall þegar tölurnar frá okkur fyrir árið verða gefnar út,“ segir Ás­gerður.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, segir að mikið hafi verið að gera hjá þeim undanfarið. Aðsóknin hafi aldrei verið meiri.
Mynd/Aðsend