Þjóðhátíðardagur Íslendinga verður haldinn hátíðlegur á morgun en lýðveldið Ísland fagnar þá 75 ára afmæli sínu. Hátíðardagskrá hefst á Austurvelli klukkan 11 og verður ýmsum götum í miðbæ Reykjavíkur lokað vegna hátíðarhaldanna.

Forsetinn setur hátíðina

Reykjavíkurborg og Alþingi munu bjóða upp á sérstaka hátíðardagskrá í tilefni afmælisins. Dagskráin hefst þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, leggur blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar klukkan 11 á Austurvelli. Þá flytur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarp og því næst flytur Fjallkonan ljóð.

Því næst verður gengið fylktu liði að kirkjugarðinum við Suðurgötu þar sem Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, leggur blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur.

Þingfundur ungmenna hefst svo á Alþingi að lokinni athöfninni en hann verður í beinni útsendingu á RÚV. Markmiðið með þingfundinum er að gefa ungu fólki tækifæri til að koma málefnum sínum á framfæri við ráðamenn þjóðarinnar og kynnast um leið störfum Alþingis.

Hér má sjá hvaða götur verða lokaðar á morgun en lokanirnar gilda frá klukkan 07:00 til 19:00.

Eitthvað fyrir alla í Hljómskálagarði

Skrúðgöngur fara frá Hallgrímskirkju og Hagatorgi stundvíslega klukkan 13 þar sem lúðrasveitir ganga í broddi fylkingar. Í Hljómskálagarðinum verða skátarnir með leiktæki fyrir gesti og verður frítt í tækin.

Í garðinum verður einnig boðið upp á sýningu og kennslu í svokölluðum kvistbolta eða „quidditch“ sem margir þekkja eflaust úr hinum sívinsælu Harry Potter bókum J. K. Rowling. Þá munu kraftakonur keppa um titilinn Stálkona Íslands, Sirkus Íslands verður með skemmtiatriði og mun Stangaveiðifélag Reykjavíkur kenna flugukast.

Í Ráðhúsi Reykjavíkur verður síðan boðið upp á harmonikkuball þar sem gestir geta dansað við harmonikkuleik. Fyrir yngstu börnin verður Brúðubíllinn svo í Hljómskálagarðinum og munu Skoppa og Skrítla halda uppi fjörinu í Hörpu.

Stórtónleikar hefjast þá klukkan 14 á sviðinu í Hljómskálagarðinum en meðal þeirra sem koma fram á þeim verða Herra Hnetusmjör, Huginn, Friðrik Dór, Bríet, GDRN, Emmsjé Gauti og Aron Can.

Minni gerð lýðveldiskökunnar svokölluðu.

75 metra lýðveldiskaka

Landssamband bakarameistara hefur hannað Lýðveldisköku í samstarfi við forsætisráðuneytið fyrir morgundaginn. Kakan verður 75 metrar á lengd, sem samsvarar einni Hallgrímskirkju, og verður í boði í miðbæ Reykjavíkur.

Lýðveldiskakan verður súkkulaðikaka, ekki frönsk, heldur er um að ræða íslenska þriggja botna mjúka köku með karamellu- og rjómaostakremi og marsipani.

Opin hús hjá opinberum stofnunum

Nýtt fjölskyldu- og fræðslurými, sem mun bera nafnið Stofa, verður opnað á Þjóðminjasafninu klukkan 14 en ókeypis aðgangur verður að safninu frá klukkan 10 til 17. Þá verða Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg, Alþingi, Hæstiréttur, Héraðsdómur Reykjavíkur, Seðlabanki Íslands og Hafrannsóknarstofnun opin almenningi frá klukkan 14 til 18.

Sýndarréttarhöld verða haldin hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Þá verða gull og gersemar til sýnis í myntsafni Seðlabankans og gefst gestum færi á að handfjatla gullstöng og komast að virði hennar. Nóbelsverðlaun Halldórs Kiljans Laxness verða þar einnig til sýnis. Hjá Héraðsdómi Reykjavíkur verður hægt að fylgjast með sýndarréttarhöldum sem haldin verða í samstarfi við lagadeildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.