Fjóla Hrund Björnsdóttir fékk flest atkvæða í ráðgefandi oddvitakjöri Miðflokksfélags Reykjavíkurkjördæmis suður sem stóð yfir í dag og í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Fjóla Hrund fékk 58 prósent atkvæða en hún og Þorsteinn Baldur Sæmundsson höfðu gefið kost á sér sem oddvitar listans. Þorsteinn hlaut 42 prósent atkvæða. Þorsteinn var oddviti flokksins í kjördæminu í Alþingiskosningunum 2017.
Niðurstöðurnar hafa verið sendar til uppstillingarnefndar kjördæmisins sem mun leggja fram framboðslista til samþykktar á félagsfundi Miðflokksfélags Reykjavíkurkjördæmis suður næstkomandi mánudag, bæði á Zoom og á skrifstofu flokksins. Kosið verður um listann bæði rafrænt og á fundinum sjálfum, að því er segir í tilkynningunni.