Sigurður Ragnar Kristinsson var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir aðild sína að Skáksambandsmálinu svokallaða. Hákon Örn Bergmann hlaut tólf mánaða dóm og Jóhann Axel Viðarsson var dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna. Þetta er annar dómurinn sem Sigurður Ragnar hlýtur á skömmum tíma, en í desember var hann dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir stórfellt skattalagabrot. Að auki var honum gert að greiða ríkissjóði 137 milljónir. Lögum samkvæmt hafa þeir þriggja vikna umhugsunarfrest til þess að áfrýja dómnum til Landsréttar. 

Hvorki Sigurður Ragnar eða Jóhann Axel voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna í dag. 

Um fimm kíló af amfetamíni

Þremenningarnir voru dæmdir fyrir að hafa staðið að og tekið þátt í innflutningi á miklu magni fíkniefna hingað til lands frá Benidorm á Spáni. Um var að ræða um fimm kíló af amfetamíni sem til stóð að senda hingað til lands frá Spáni. 

Vakti málið gífurlega athygli í fyrra, en Sigurður Ragnar er fyrrverandi eiginmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttir, sem slasaðist alvarlega þegar hún féll milli hæða á heimili þeirra á Malaga á Spáni fyrir rúmu ári. 

Sjá einnig: Fékk taugaáfall á spítalanum í gær

Í skýrslutöku hjá lögreglu lýsti Sigurður Ragnar því hvernig hann fékk fíkniefnin afhent á hótelherbergi, vacumpakkað þeim og komið þeim fyrir inni í skálmunum. Þá sagðist hann hafa lesið um Norðurlandamót í skák og því ákveðið að kaupa taflmenn og stíla sendinguna á Skáksamband Íslands. Sagðist hann hafa varið um fjórum klukkustundum í að umpakka fíkniefnunum og koma þeim fyrir í taflmönnum. Spænsk yfirvöld urðu þó vör við fíkniefnin og var þeim skipt út fyrir gerviefni áður en þau voru send hingað til lands. Sigurður Ragnar Hann játaði aðild sína að hluta frá upphafi en kaus að tjá sig ekki frekar í skýrslutöku við aðalmeðferð málsins í janúar. „Ég kýs að tjá mig ekki frekar,“ sagði Sigurður Ragnar fyrir dómi í janúar. „Ég hef farið í margar skýrslutökur og hef sagt rétt frá.“

Sjá einnig: „Var kominn í eitthvað sem ég vildi ekki taka þátt í“

Sagði að björgunarhringur væri á leiðinni frá Spáni

Sigurður Ragnar hafði samband við vin sinn Hákon Örn Bergmann áður en hann sendi pakkann til landins og bað hann um að taka á móti pakkanum. Hákon og Sigurður eru gamlir vinir en Hákon kvaðst ekki hafa vitað að fíkniefni væru í pakkanum, heldur sagðist hafa talið í upphafi að um væri að ræða peningasendingu. Greindi hann frá því í skýrslutöku við aðalmeðferð málsins hvernig hann lánaði Sigurði pening, en í desember 2017 vantaði honum að fá lánið greitt til baka. 

Sjá einnig: Sigurður í fangelsi og gert að greiða 137 milljónir

Sagði Hákon Sigurð á þeim tíma hafa farið að tala um að „björgunarhringur“ væri í leið frá Spáni og beðið sig um að fjárfesta í nýju símanúmeri og svo hafa kveikt á símanum yfir jólin. Hákon sagði að á sig hefðu runnið tvær grímur þegar Sigurður Ragnar tjáði honum að það væri ekki sniðugt fyrir hann sjálfan að taka á móti pakkanum. Fékk hann í kjölfarið þriðja manninn, Jóhann Axel, til þess að taka á móti pakkanum. Jóhann Axel sótti í kjölfarið  pakkann fyrir utan húsnæði Skáksambands Íslands, þar sem lögreglan beið eftir honum. 

Fyrir dómi sagðist Hákon hafa greitt Jóhanni Axeli fimmtíu þúsund krónur og niðurgreiðslu skuldar fyrir að sækja sendinguna og fylgdist hann með Jóhanni sækja hana úr fjarlægð. Jóhann Axel sagðist sjálfur ekki hafa vitað að um fíkniefni væri að ræða heldur kvaðst hafa talið að hann væri að sækja stera.