Réttarhöldum yfir tólf leiðtogum katalónsku sjálfstæðishreyfingarinnar fyrir hæstarétti í Madríd, höfuðborg Spánar, lauk í gær. Dóms er að vænta á næstu mánuðum, hvort sem það verður síðla sumars eða í haust.

Sækjendurnir þrír í málinu, ríkissaksóknari, saksóknari dómsmálaráðuneytisins og lögmenn íhaldsöfgaflokksins Vox, hafa reynt að sýna fram á að Katalónarnir hafi brotið lög í kringum sjálfstæðisatkvæðagreiðslu og -yfirlýsingu héraðsins haustið 2017.

Réttarhöldin hafa verið afar umfangsmikil. Mikill fjöldi vitna hefur verið kallaður til undanfarna fjóra mánuði og myndbandsupptökur af kjördegi og mótmælum í kringum hann spilaðar.

Saksóknari dómsmálaráðuneytisins krefst vægustu dómanna og sakar níu af tólf ákærðu um uppreisnaráróður. Í miðjunni er ríkissaksóknarinn sem sakar níu af tólf um uppreisn og Vox krefst þyngstu dómanna, fyrir bæði uppreisn og skipulagða glæpastarfsemi. Í loka­ræðum sínum héldu sækjendur fram þessum ásökunum.

Þyngstra dóma er krafist yfir Oriol Junqueras, hinum nýkjörna þingmanni, Evrópuþingmanni og fyrrverandi varaforseta héraðsstjórnarinnar. Saksóknari dómsmálaráðuneytisins krefst tólf ára, ríkissaksóknari 25 ára og Vox 74 ára. Samkvæmt greiningu katalónska miðilsins El Nacional er helst búist við því að horft verði til málflutnings ríkissaksóknara er dómarar íhuga dóm sinn.

Sækjendur hafa, og lýstu því í lokaræðum sínum, einbeitt sér að því að sýna fram á að Katalónarnir hafi sýnt stjórnarskrá Spánar lítilsvirðingu og skapað aðstæður sem leiddu til þess að þúsundum Katalóna lenti saman við lögreglu.

Verjendur hafa ítrekað sagt að réttarhöldin séu pólitísk og snúist í raun um sjónarmið sakborninga, ekki gjörðir þeirra. Samkvæmt spænska blaðinu El País hafa verjendur hins vegar gengist við vægasta ákæruliðnum, um að sakborningar hafi óhlýðnast tilmælum stjórnvalda.

Helsti ásteytingarsteinninn, þá einkum á milli verjenda og ríkissaksóknara, hefur hins vegar verið spurningin um ofbeldi. Það er að segja hvort Katalónarnir hafi beitt eða hvatt til ofbeldis í kringum atkvæðagreiðsluna. Ofbeldi er forsenda þess að hægt sé að dæma nokkurn fyrir uppreisn.

Ríkissaksóknari hefur haldið því fram að án ofbeldis hefðu ákærðu ekki getað náð markmiði sínu á meðan saksóknari dómsmálaráðuneytisins segir ofbeldi ekki hafa verið stóran hluta af áætlun ákærðu né hafi það náð því marki að það hafi haft teljandi áhrif.

Verjendur hafa hins vegar sagt spænsku lögregluna eina aðilann sem beitti ofbeldi á þessum tíma. Heilbrigðisyfirvöld í héraðinu hafa áður greint frá því að hundruð Katalóna hafi slasast við aðgerðir lögreglu á kjördag og leiðtogar og stjórnmálamenn víða um heim gagnrýndu spænsku lögregluna á þeim tíma.