Rétt rúmur helmingur kjósenda ætlar að kjósa það sama í þessum kosningum og í þeim síðustu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun Prósents, sem gerð var fyrir Fréttablaðið.

Líkt og greint var frá í gær heldur ríkisstjórnin ekki velli þegar litið er fylgis flokka, en fleiri vilja að núverandi ríkisstjórn haldi áfram í stað annarra valkosta.

Ef þingsætum er skipt niður í samræmi við kjördæmaskipun fengi Sjálfstæðisflokkurinn 15 þingmenn, Samfylkingin níu, Framsóknarflokkurinn níu, Viðreisn sjö, Píratar sjö, Vinstri græn sjö, Sósíalistaflokkurinn fimm og Miðflokkurinn fjóra.

Ef þetta verður niðurstaðan fengi ríkisstjórnin 31 þingmann og missti þannig meirihlutann. Samfylkingin gæti myndað fjögurra flokka ríkisstjórn með Framsóknarflokknum, Vinstri grænum, Pírötum eða Viðreisn, en þá aðeins með eins manns meirihluta.

Munur er á milli kannana á því hvort ríkisstjórnin heldur velli eða ekki.

„Ef við horfum aftur í tímann, vikur eða mánuði, þá er búinn að vera mjög lítill munur á niðurstöðum þessara mælinga,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmála- og aðferðafræði við Háskólann á Akureyri.

„Sósíalistaflokkurinn hefur verið að hækka sig en virðist ekki komast yfir 7,5 prósent. Að öðru leyti hafa ekki verið neinar dramatískar sveiflur undanfarið.“

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn mælast með áberandi meira fylgi á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, að sama skapi mælist Samfylkingin, Vinstri græn, Píratar og Viðreisn með meira fylgi á höfuðborgarsvæðinu.

Margir hafa þegar kosið utankjörfundar, kjördagur er laugardagurinn 25. september
fréttablaðið/ernir

Aðeins fimm prósent svöruðu að þau vissu ekki hvað þau ætluðu að kjósa.

„Það er fyrst núna upp á síðkastið sem við erum að sjá einhverjar hreyfingar, Framsókn og Samfylkingin eru að fara upp á við. Það er líklega vegna þess að kosningarnar eru að nálgast og óákveðnir eru í meira mæli búnir að gera málið upp við sig,“ segir Grétar.

Yngra fólk getur verið rót skekkju á milli kannana og niðurstöðu kosninga. „Það lendir í úrtaki í könnunum og svarar, við fáum niðurstöður sem byggja á þeirra svörum. Svo skilar það sér verr heldur en aðrir aldurshópar í kjörklefann,“ segir Grétar. „Það getur leitt til ofmats á fylgi flokka sem sækja meira fylgi til unga fólksins.“

Samkvæmt niðurstöðum könnunar Prósents mælast Samfylkingin, Viðreisn og Píratar með meira fylgi meðal yngra fólks en þess eldra. Eldri aldurshópar eru aftur á móti líklegri til að styðja Sjálfstæðisflokkinn, Vinstri græn og Flokk fólksins.

Konur eru mun líklegri en karlar til að styðja Vinstri græn, 15 prósent á móti 5 prósentum karla.

Grétar segir að flokkar sem eru sterkari á landsbyggðinni geti grætt á því.

„Rót þess er skortur á jöfnunarþingsætum, þau eru of fá, ekki nema níu. Um leið og flokkur fær fimm prósent fær hann sjálfkrafa þrjá jöfnunarmenn. Þetta getur haft áhrif á útkomuna, hvort Flokkur fólksins nær fimm prósentum eða ekki. Ef hann nær fimm prósentum þá fær hann þrjá jöfnunarmenn, ef ekki þá eru miklu meiri líkur á að það séu nægilega margir jöfnunarmenn til þess að jafna hina flokkana,“ segir Grétar.

Getur það jafnvel haft áhrif á hvort ríkisstjórnin falli eða ekki.