Samkvæmt nýjustu könnunum tapa ríkisstjórnarflokkarnir þrír meirihluta sínum á Alþingi á laugardaginn. Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur, segir að ef skoðanakannanir halda verður fjögurra til fimm flokka ríkisstjórn frá miðju til vinstri líklegasta niðurstaðan eftir helgi.
„Ég held það stefni örugglega, miðað við síðustu kannanir, í fjögurra eða fimm flokka stjórn. Miðað við þá stöðu er mið-vinstri stjórn kannski líklegust en það er alls ekki hægt að útiloka einhvers konar mynstur til hægri sem að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur væru í. Þó það sé vanséð hvaða flokka hún ætti að fá með sér inn í það,“ segir Ólafur.
Hann telur ólíklegt ef mið-hægri stjórn yrði mynduð að Framsókn myndi vilja vinna með Miðflokknum.
„Það væri hugsanlegt að Viðreisn væri til í að fara inn í mið-hægri stjórn. En ég er alls ekki viss um að Viðreisn vilji það eða að það væri fyrsti kostur Viðreisnar.“
Algent að ríkisstjórnarflokkar tapi fylgi
Spurður um fylgistap stjórnarflokkanna í síðustu könnunum, segir Ólafur það algengt að ríkisstjórnarflokkar tapi fylgi eftir að hafa setið í stjórn.
„Í fyrsta lagi þá vitum við ekki hvort þessi flótti upp á síðkastið raungerist en það er líklegra heldur en hitt. Hins vegar ættum við ekki að láta það koma okkur á óvart,“ segir Ólafur.
„Það sem breyttist eftir hrun er að síðan þá hafa allar ríkisstjórnir tapað umtalsverðu fylgi í kosningunum eftir kjörtímabilið sem þau sitja. Ekki allir flokkar en ríkisstjórnarflokkarnir í heild og ríkisstjórnirnar hafa raunar allar fallið.“
Fyrir efnahagshrunið var það einnig langalgengast að ríkisstjórnarfokkar töpuðu samanlagt fylgi í kosningum en munurinn var sá að fylgistapið var mun minna. Það þýddi því oftast ríkisstjórnin hélt velli þó þingmönnum stjórnarflokkanna mögulega fækkaði eitthvað.

Fylgistap VG ætti ekki að koma neinum á óvart
Ólafur segir að það væri réttast að velta fyrir sér af hverju ríkisstjórnin ætti að geta haldið meirihlutanum fremur en af hverju hún er að tapa meirihlutanum en ríkisstjórnarflokkarnir þrír ganga til kosninga með 33 þingmanna meirihluta.
„Ef að þeir héldu meirihlutanum væri það nýr flötur og væri það í fyrsta skipti eftir hrun sem það myndu gerast,“ segir Ólafur en flokkarnir þurfa ekki að tapa miklu fylgi til þess að það gerist.
„Þannig manni finnst ekki skrýtið að stjórnarflokkarnir tapi fylgi en varðandi VG sérstaklega þá var náttúrulega vitað þegar þeir fóru í þessa stjórn að margir í þeirra stuðningsliði voru óhressir með það að Vinstri græn voru að vinna með Sjálfstæðisflokknum. Til viðbótar við það að tapa ríkisstjórnarflokkar yfirleitt fylgi gátu allir vitað þegar stjórnin var mynduð 2017 að það væru allar líkur á því á því að VG myndi tapa umtalsverðu fylgi í næstu kosningum.“
„Það ætti ekki að koma neinum á óvart og ég held það komi Katrínu Jakobsdóttur ekki á óvart,“ segir Ólafur.

Framsókn virðist vera vinna slaginn við Miðflokkinn
Ólafur bendir á að sé mjög áhugavert að fylgjast með Framsókn bæta við sig fylgi en samkvæmt reglunni ætti Framsóknarflokkurinn að tapa fylgi líkt og aðrir stjórnarflokkar. Framsóknarflokkurinn mælist hins vegar sem næststærsti flokkur landsins með 13,2 prósenta fylgi og er að bæta við sig einum til tveimur prósentum frá síðustu kosningum.
„Sem er mjög gott fyrir stjórnarflokk. Miðað við kannirnar eins og þær eru í dag virðast þau algjörlega hafa unnið slaginn við Miðflokkinn. Það gæti verið að hjálpa þeim líka,“ segir Ólafur.
