Sam­kvæmt nýjustu könnunum tapa ríkis­stjórnar­flokkarnir þrír meiri­hluta sínum á Alþingi á laugardaginn. Ólafur Þ. Harðar­son, stjórn­mála­fræðingur, segir að ef skoðana­kannanir halda verður fjögurra til fimm flokka ríkis­stjórn frá miðju til vinstri lík­legasta niður­staðan eftir helgi.

„Ég held það stefni örugg­lega, miðað við síðustu kannanir, í fjögurra eða fimm flokka stjórn. Miðað við þá stöðu er mið-vinstri stjórn kannski lík­legust en það er alls ekki hægt að úti­loka ein­hvers konar mynstur til hægri sem að Fram­sókn og Sjálf­stæðis­flokkur væru í. Þó það sé van­séð hvaða flokka hún ætti að fá með sér inn í það,“ segir Ólafur.

Hann telur ó­lík­legt ef mið-hægri stjórn yrði mynduð að Fram­sókn myndi vilja vinna með Mið­flokknum.

„Það væri hugsan­legt að Við­reisn væri til í að fara inn í mið-hægri stjórn. En ég er alls ekki viss um að Við­reisn vilji það eða að það væri fyrsti kostur Við­reisnar.“

Algent að ríkisstjórnarflokkar tapi fylgi

Spurður um fylgis­tap stjórnar­flokkanna í síðustu könnunum, segir Ólafur það al­gengt að ríkis­stjórnar­flokkar tapi fylgi eftir að hafa setið í stjórn.

„Í fyrsta lagi þá vitum við ekki hvort þessi flótti upp á síð­kastið raun­gerist en það er lík­legra heldur en hitt. Hins vegar ættum við ekki að láta það koma okkur á ó­vart,“ segir Ólafur.

„Það sem breyttist eftir hrun er að síðan þá hafa allar ríkis­stjórnir tapað um­tals­verðu fylgi í kosningunum eftir kjör­tíma­bilið sem þau sitja. Ekki allir flokkar en ríkis­stjórnar­flokkarnir í heild og ríkis­stjórnirnar hafa raunar allar fallið.“

Fyrir efna­hags­hrunið var það einnig lang­al­gengast að ríkis­stjórnar­fokkar töpuðu saman­lagt fylgi í kosningum en munurinn var sá að fylgis­tapið var mun minna. Það þýddi því oftast ríkis­stjórnin hélt velli þó þing­mönnum stjórnarflokkanna mögulega fækkaði eitthvað.

Sögulega séð tapa ríkisstjórnarflokkar alltaf fylgi í næstu kosningum.
Fréttablaðið/Ernir

Fylgistap VG ætti ekki að koma neinum á óvart

Ólafur segir að það væri réttast að velta fyrir sér af hverju ríkis­stjórnin ætti að geta haldið meiri­hlutanum fremur en af hverju hún er að tapa meiri­hlutanum en ríkis­stjórnar­flokkarnir þrír ganga til kosninga með 33 þing­manna meiri­hluta.

„Ef að þeir héldu meiri­hlutanum væri það nýr flötur og væri það í fyrsta skipti eftir hrun sem það myndu gerast,“ segir Ólafur en flokkarnir þurfa ekki að tapa miklu fylgi til þess að það gerist.

„Þannig manni finnst ekki skrýtið að stjórnar­flokkarnir tapi fylgi en varðandi VG sér­stak­lega þá var náttúru­lega vitað þegar þeir fóru í þessa stjórn að margir í þeirra stuðnings­liði voru ó­hressir með það að Vinstri græn voru að vinna með Sjálf­stæðis­flokknum. Til við­bótar við það að tapa ríkis­stjórnar­flokkar yfir­leitt fylgi gátu allir vitað þegar stjórnin var mynduð 2017 að það væru allar líkur á því á því að VG myndi tapa um­tals­verðu fylgi í næstu kosningum.“

„Það ætti ekki að koma neinum á ó­vart og ég held það komi Katrínu Jakobs­dóttur ekki á ó­vart,“ segir Ólafur.

Fylgistap VG ætti ekki að koma Katrínu að óvart, segir Ólafur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fram­sókn virðist vera vinna slaginn við Mið­flokkinn

Ólafur bendir á að sé mjög á­huga­vert að fylgjast með Fram­sókn bæta við sig fylgi en sam­kvæmt reglunni ætti Fram­sóknar­flokkurinn að tapa fylgi líkt og aðrir stjórnar­flokkar. Fram­sóknar­flokkurinn mælist hins vegar sem næst­stærsti flokkur landsins með 13,2 prósenta fylgi og er að bæta við sig einum til tveimur prósentum frá síðustu kosningum.

„Sem er mjög gott fyrir stjórnar­flokk. Miðað við kannirnar eins og þær eru í dag virðast þau al­gjör­lega hafa unnið slaginn við Mið­flokkinn. Það gæti verið að hjálpa þeim líka,“ segir Ólafur.

Sigurður Ingi Jóhannson, formaður Framsóknarflokksins, virðist vera hafa betur gegn Sigmundi Davíð formanni Miðflokksins.