Norska lög­reglan hefur hafið að nýju rann­sókn á hvarfi fjögurra barna móður, Belur Sardar, sem hvarf spor­laust í Mjønda­len árið 2007. Eigin­maður Sardar var grunaður um að hafa ráðið henni bana á sínum tíma en rann­sóknin var látin niður falla vegna skorts á sönnunar­gögnum.

VG greinir frá þessu á vef sínum.

Sardar var 29 ára þegar hún hvarf en hún flutti til Noregs frá Írak á­samt eigin­manni sínum á tíunda ára­tug síðustu aldar. Eftir að lög­regla hóf rann­sókn málsins kom í ljós að þau höfðu komið til landsins á fölskum pappírum og fór svo að eigin­manninum var vísað úr landi þegar rann­sóknin var felld niður.

Í frétt VG kemur fram að lög­regla hafi fengið á­bendingu frá eldri hjónum og hún hafi orðið til þess að tækni­lið lög­reglu, með hjálp sér­þjálfaðra lík­leitar­hunda, fram­kvæmdu leit á litlu svæði skammt frá Kongs­berg. Hjónin höfðu séð grun­sam­legan mann, sem svipaði til eigin­manns Sardar, at­hafna sig í skóg­lendi hjá Kongs­berg um það leyti sem Sardar hvarf.

Odd Kost­veit, full­trúi lög­reglunnar í Mjønda­len segir að ekkert hafi fundist við leitina en lög­regla muni halda á­fram að fylgja eftir þeim vís­bendingum sem hún fær. „Við munum ekki gefast upp,“ segir Kost­veit en bætir við að litlar líkur séu á því að Sardar finnist á lífi.

Eigin­maður Sardar til­kynnti um hvarf eigin­konu sinnar þann 30. apríl 2007 og var hann lengi vel grunaður um verknaðinn. Hann neitaði stað­fast­lega sök og sat um tíma um tíma í gæslu­varð­haldi vegna málsins. Honum var vísað úr landi árið 2008.