Fjögurra ára ástralskur drengur bjargaði lífi móður sinnar þegar hann hringdi á neyðarlínuna og lét vita að móðir hans hefði fallið í gólfið. Þegar sjúkraliðar komu á staðinn kom í ljós að móðirin hefði fengið flogakast.
Drengurinn hringdi sjálfur í neyðarlínuna, 000, og þegar sjúkraliðar komu að húsinu stóð drengurinn í glugganum og veifaði þeim til að láta vita að þeir væru á réttum stað.
Sjúkraliði segir viðbrögð drengsins hafa skipt sköpum. „Þegar maður rekur hausinn í við svona fall eða ef maður fær langt flogakast, þá getur það verið ansi alvarlegt,“ sagði einn sjúkraliðinn.
„Ég er svo stolt, hann er litla hetjan mín, hann bjargaði deginum,“ sagði móðirin.
Sama dag og slysið átti sér stað hafði móðir drengsins kennt honum hvernig á að hringja í sjúkrabíl, bæði þegar síminn er læstur og ólæstur. Móðirin segist ekki hafa búist við því að sonurinn þyrfti að nýta sér þessa þekkingu svona fljótt.