Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu fór í fjöl­breytt verk­efni í gær­kvöldi og í nótt. Í dag­bók lög­reglunnar kemur fram að einn hafi verið hand­tekinn rétt fyrir klukkan 19 í gær­kvöldi vegna líkams­á­rásar. Hann var vistaður í fanga­klefa.

Þá var einn karl­maður hand­tekinn eftir að hann sparkaði í lög­regluna en upp­haf­lega var lög­reglan kölluð til vegna sama manns en hann svaf ölvunar­svefni í bíla­stæða­húsi í mið­bænum. Hann vildi ekki yfir­gefa húsið og brást illa við þegar honum var vísað út.

Þá voru þó­nokkrir öku­menn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir á­hrifum annað hvort á­fengis eða vímu­efna auk þess sem einn á von á kæru vegna brots á sótt­varna­lögum, en hann átti að vera í ein­angrun.

Til­kynnt var um fleiri líkams­á­rásir. Til­kynnt var um líkams­á­rás um klukkan 21 í gær­kvöldi í Breið­holti, þá var til­kynnt um þjófnað og líkams­á­rás í hverfi 104 um klukkan hálf þrjú í nótt og tæp­lega hálf tvö var í nótt til­kynnt um líkams­á­rás í Hafnar­firði.

Í Grafar­vogi var svo öku­maður stöðvaður sem ók á 126 þar sem að­eins mátti aka á 80 kíló­metrum á klukku­stund. Fram kemur í dag­bók lög­reglunnar að í við­ræðum við manninn fann lög­reglan mikla kanna­bis­lykt og er hann einnig grunaður um að aka undir á­hrifum og vörslu vímu­efna.