Ungmennum í vinnuskóla Kópavogsbæjar brá heldur betur í brún nýverið þegar þau grófu óvænt upp box sem komið hafði verið fyrir í beði við Salaskóla.

Í boxinu fundust fjögur úr og gullkeðja en ekki liggur fyrir hver eigandi boxins er. Vinnuskóli Kópavogs greindi frá fundi þessum á Facebook þar sem lýst er eftir eiganda boxins.

Kannist einhver við fenginn getur sá hinn sami vitjað hans á skrifstofu vinnuskólans í Askalind 5. Vinnuskólinn hefur haft samband við lögregluna vegna málsins.