Nokkur ríki hafa lagt fram tillögu um afnám hvalveiðibannsins á ráðstefnu Alþjóðahvalveiðiráðsins sem fram fer í borginni Portoroz í Slóveníu þessa dagana. Einkum eru þetta lítil og fátæk þróunarríki.

Tillagan er lögð fram af karabíska eyríkinu Antígva og Barbúda. Meðmælendur tillögunnar eru Afríkuríkin Gínea og Gambía og Asíuríkið Kambódía. Óvíst er hversu mikils stuðnings tillagan nýtur innan hvalveiðiráðsins, sem telur 88 ríki.

„Þessar tilraunir virðast vera fyrir fram dauðadæmdar,“ segir Ole Anton Bieldvedt, formaður dýraverndunarsamtakanna Jarðarvina. Afstaða heimsins sé skýr. Veiðar, kaup, sala, flutningur og geymsla hvala og hvalaafurða sé bönnuð innan lögsögu nánast allra ríkja. Aðeins þrjár þjóðir veiði hval, Íslendingar, Norðmenn og Japanir. „Ég get ekki ímyndað mér að það komi upp ný alda í heiminum sem lýtur að því að drepa hvali á nýjan leik,“ segir Ole.

Ríkin sem standa að tillögunni telja að hvalveiðar geti verið sjálfbærar, myndu auka matvælaöryggi og minnka fátækt.

Ole segir sjálfbærni, eða veiðiþol, ekki vera aðalviðfangsefnið. Fyrstu spurningarnar hljóti að vera hvort þörf sé á veiðunum, hvort þær hafi efnahagslegan tilgang og hvort þær séu mannúðlegar.

Nýlega hafi verið greint frá 70 prósenta fækkun í villtum dýrastofnum á heimsvísu og því séu veiðar á villtum dýrum forkastanlegar. „Ég hef áhyggjur af öllum veiðum á villtum dýrum, ekki síst þegar stofnarnir eru veikir,“ segir Ole spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að ríki gangi úr hvalveiðiráðinu og hefji veiðar, líkt og Japanir gerðu árið 2018. Hann telur að umrædd ríki ættu frekar að huga að því að rækta landið.