Íslendingar eru með þeim Evrópuþjóðum sem nota netið hvað mest samkvæmt tölum Evrópusambandsins. 96 prósent landsmanna, á aldrinum 15 til 74 ára, hafa netfang og nota netið til að senda og taka við tölvupósti. Aðeins Norðmenn eru með hærra hlutfall en meðaltal álfunnar er ekki nema 76 prósent.

76 prósent Íslendinga nota netið til þess að spjalla við aðra, annað hvort með hljóði eða mynd. Þetta hefur aukist mjög í faraldrinum en árið 2019 var hlutfallið 64 prósent, 12 prósentum lægra.

Fleiri nota netið líka til þess að sækja sér upplýsingar um heilsu sína, til dæmis með heilsuveru.is. Árið 2019 nýttu 65 prósent Íslendinga sér þetta en 71 prósent í dag.

Lítil breyting hefur verið á því hversu margir lesa fréttir á netinu. Þar er hlutfallið 95 prósent, það hæsta í álfunni og hefur verið í nokkur ár. Sama hlutfall er með netbanka og notar hann til þess að millifæra og greiða reikninga.

42 prósent landsmanna spila tölvuleiki á netinu, 84 prósent hlusta á tónlist og 90 prósent horfa á sjónvarpsþætti eða kvikmyndir á streymisveitum.