Fjórir einstaklingar greindust með kórónaveiruna innanlands í gær en allir sem greindust voru í sóttkví. Þrír af þeim sem greindust voru með einkenni en einn greindist við sóttkvíar- og handahófsskimun.

Þá greindust sex einstaklingar með veiruna við landamæraskimun og fjölgar þeim um fimm milli daga. Af þeim sem greindust voru þrír með virkt smit og tveir með mótefni en beðið er mótefnamælingar úr einu sýni.

Einstaklingum í einangrun með virkt smit fækkar aftur á móti um þrjá milli daga og eru nú 56 í einangrun. Þá fækkar einstaklingum í sóttkví um sjö og eru nú 46 í sóttkví. Töluvert fleiri eru í skimunarsóttkví í dag heldur en í gær en þeim fjölgar um tæplega 250 milli daga og eru nú 1088 talsins.

Tæplega 1100 sýni voru tekin innanlands í gær og 272 á landamærunum.

200 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun

Búið er að bólusetja 4789 einstaklinga hér á landi gegn COVID-19 og er bólusetning hafin hjá 5646 einstaklingum til viðbótar. Þeir sem hafa lokið bólusetningu fengu allir bóluefni Pfizer og BioNTech en bólusetning er einnig hafin með bóluefni Moderna.

Að því er kemur fram á vef Lyfjastofnunar hafa alls borist 200 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun í kjölfar bólusetningar. Tilkynningar fyrir bóluefni Pfizer eru 135 talsins og fyrir Moderna eru tilkynningarnar 65.

Lyfjastofnun greindi frá því í gær að tilkynnt hafi verið um átta andlát í kjölfar bólusetningar og voru þau öll vegna bóluefnis Pfizer. Tilkynningar um- alvarlegar aukaverkanir fyrir bóluefni Pfizer eru tíu og ein fyrir bóluefni Moderna.

Fréttin hefur verið uppfærð.