Fjórir einstaklingar greindust með kórónaveiruna innanlands í gær en af þeim sem greindust voru tveir í sóttkví.
Á landamærunum greindust tveir einstaklingar með veiruna, þar af var einn með mótefni. Um er að ræða töluvert færri smit á landamærunum miðað við síðustu daga.
Alls eru nú 106 einstaklingar í einangrun hér á landi með virkt smit og 227 í sóttkví en í skimunarsóttkví eru nú 1.279 manns.
Tiltölulega fá sýni voru tekin innanlands í gær en þau voru tæplega 600 talsins innanlands og tæplega 150 á landamærunum.
Átján einstaklingar eru inniliggjandi á sjúkrahúsi, þar af þrír með virkt smit, en enginn er á gjörgæslu.
Upplýsingafundur í dag
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn munu fara yfir stöðu mála á upplýsingafundi almannavarna sem hefst núna klukkan 11.
Þá verður Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, gestur fundarins.
Fréttin hefur verið uppfærð.