Fjögur létust í árásinni á þinghúsið í Washington D.C. í Bandaríkjunum í gær. BBC greinir frá því að kona, sem var meðal þeirra sem réðust inn í þinghúsið, hafi verið skotin til bana af lögreglu. Ekki er ljóst hvernig hin þrjú létust. Útgöngubann er í gildi til klukkan 06:00 að staðartíma.

Það er vægt til orða tekið þegar sagt er að múgæsing hafi myndast fyrir framan þinghúsið í gær. Óeirðaseggir og fylgjendur Donalds Trump, fráfarandi forseta, gerðu áhlaup að þinghúsinu þar sem Bandaríkjaþing hafði komið saman til að staðfesta kjör Joe Biden til forseta Bandaríkjanna.

Þingmenn voru við það að ræða úrslitin í Arizona þegar óeirðaseggirnir brutust inn í þinghúsið og mátti sjá nokkra aðila veifa fána Suðurríkjasambandsins (e. confederate flag). Hluti þeirra réðst inn í þinsalinn sjálfan og lýsti því yfir að Trump hefði sigrað í forstakosningunum, aðrir réðust inn á skrifstofur þingmanna en búið var að koma öllum þingmönnum í öruggt skjól.

Donald Trump gerði lítið til að stilla til friðar og birti myndband á Twitter, sem nú er búið að taka niður, þar sem hann hélt því fram enn og aftur að hann hefði sigrað í kosningunum. Hafa fjölmargir kallað eftir því að virkja ákvæði 25. viðauka stjórn­ar­skrár­inn­ar til að koma for­set­an­um frá völd­um.

Þingið hefur nú komið aftur saman til að hefja staðfestingarferlið á ný. Á sama tíma og þingið ræddi kjör Joe Bidens unnu Demókratar stórsigur í þingkosningum.

Demókratar munu stjórna báðum deildum Bandaríkjaþings næstu tvö árin en báðir frambjóðendur þeirra í Georgíu fóru með sigur af hólmi í kosningunum til öldungadeildarinnar. Demókratar eru einnig með meirihluta innan fulltrúadeildarinnar og geta þeir því komið ýmislegu í verk næstu árin.