Fjórir greindust með kórónaveiruna innanlands í gær en allir þeir sem greindust voru í sóttkví við greiningu. Þrjú smit greindust innanlands á föstudag og þrjú á laugardag en allir voru þar í sóttkví við greiningu.

Alls eru nú 174 í einangrun með virkt smit og 496 í sóttkví. Fimm eru nú á sjúkrahúsi vegna COVID-19.

Á landamærunum greindust fjórir með veiruna en allir reyndust þeir vera með mótefni. Einn greindist með virkt smit við seinni skimun á laugardag en enginn á föstudag. 1136 eru nú í skimunarsóttkví en fjölmargir komu til landsins um helgina.

Rúmlega 750 sýni voru tekin innanlands í gær en rúmlega þúsund á landamærunum. Á föstudag voru rúmlega 1500 sýni tekin innanlands og rúmlega 600 á landamærunum en á laugardag voru rúmlega 700 sýni tekin innanlands og tæplega 600 á landamærunum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði í gær minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um breytingar á gildandi samkomutakmörkunum. Óljóst er hvað felst í minnisblaðinu en í ljósi afléttinga á landamærunum og framvindu bólusetninga er vonast til þess að gripið verði til tilslakana.

Í vikunni munu bólusetningar halda áfram með þeim fjórum bóluefnum sem hafa hlotið skilyrt markaðsleyfi hér á landi. Alls hafa nú 36.376 einstaklingar verið fullbólusettir gegn COVID-19 auk þess sem bólusetning er hafin hjá 73.823 einstaklingum til viðbótar.

Fréttin hefur verið uppfærð.