Fjögur greindust með Covid-19 innanlands síðastliðinn sólarhring og var aðeins einn í sóttkví við greiningu. Það voru því þrír utan sóttkvíar við greiningu.

Um er að ræða fjölgun frá því í gær þegar enginn greindist með veiruna í fyrsta sinn frá því 18. mars síðastliðinn.

Alls eru nú 73 í einangrun með virkt smit en þeim fækkar um sjö á milli. Þá eru 165 í sóttkví og 1072 í skimunarsóttkví.

Þrír eru á sjúkrahúsi og fjölgar þeim um einn frá því í gær. Þar af er einn á gjörgæslu. Um er að ræða einstakling á sjötugsaldri sem var fluttur með flugi á Landspítalann.

Færri smit á landamærunum

Þrír einstaklingar greindust á landamærunum og fækkar sýktum einstaklingum milli daga. Allir voru með virkt smit, þar af einn í seinni skimun. Alls voru 434 sýni voru tekin á landamærunum.

Nýjar reglur um samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti í gær en með breytingunum máttu tuttugu manns koma saman í stað tíu áður.

Sundstaðir og líkamsræktarstöðvar opnuðu dyr sínar að nýju í gær og mega hafa opið samkvæmt ströngum sóttvarnareglum.