Fjögur hundruð þúsund netárásir voru gerðar á Neyðarlínuna á Íslandi, 112, á einum og sama sólarhringnum í upphafi innrásar Rússa í Úkraínu í lok febrúar á þessu ári. Árásirnar hafa haldið áfram allar götur frá því stríðið braust út. Þetta staðfesta heimildir Fréttablaðsins.

Þessara skipulögðu árása hefur einnig orðið vart í æ ríkari mæli á sömu innviði á öðrum Norðurlöndum, svo og í vesturhluta Evrópu og Bandaríkjunum.

„Það eru engar rökstuddar vísbendingar um að hóparnir sem stunda þessar árásir komi frá einu og sama ríkinu,“ segir Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður netöryggissveitarinnar Certis, aðspurður hvort grunur leiki á að Rússar standi að baki gríðarlegri fjölgun netárása á undanförnum mánuðum. „Vissulega hefur þetta verið holskefla frá því að stríðið braust út,“ bætir hann við.

Magnús Hauksson, rekstrarstjóri Neyðarlínunnar, segir að enn hafi árásirnar ekki valdið skaða á þjónustu neyðarnúmersins, 112. „Við krossum fingur og reynum að vera skrefi á undan þrjótunum. Það sem vekur aftur á móti athygli okkar er hvað árásirnar eru tíðar og umfangsmiklar á þetta fámenna land okkar,“ segir hann.

Guðmundur Arnar segir að fyrirtæki á borð við Neyðarlínuna og önnur opinber fyrirtæki á Íslandi búi yfir sterkum vörnum gegn netárásum af þessu tagi og þoli þúsundir árása á einum og sama deginum. „Ógnin er til staðar, en tjónið hefur ekki raungerst enn þá, hvað svo sem síðar verður með mörg hundruð þúsund árásum á sólarhring sem vissulega er tilefni til að taka alvarlega,“ segir hann.

Guðmundur Arnar bendir á tvíþættan tilgang árásanna. „Annars vegar eru menn að reyna að komast yfir gögnin og taka þau í gíslingu gegn lausnargjaldi, ellegar að taka niður þjónustuna og skemma í hernaðarlegum tilgangi.“

Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður Certis.