Fjögur börn greindust í dag með E.coli sýkingu, og eru börnin því orðin sex­tán talsins sem greinst hafa með bakteríuna á undan­förnum dögum. Börnin fjögur eru á aldrinum fjór­tán mánaða til fjögurra ára.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá land­lækni. Þar segir að tekin hafi verið sýni frá um þriðjungi starfs­fólks Efsta­dals 2, þangað sem smitin eru rakin, en að enginn starfs­maður hafi greinst með bakteríuna. Þá hafi 27 sýni verið tekin í dag og að stað­fest sýking hafi greinst í fjórum þeirra.

Líkt og greint hefur verið frá eiga börnin það öll sam­eigin­legt að hafa heim­sótt bæinn Efsta­dal 2 í Blá­skóga­byggð og að hafa borðað ís sem þar er seldur. Um helmingur barnanna var í tengslum við kálfa á staðnum.

Búið er að grípa til að­gerða og ráð­stafanna vegna málsins, að sögn eig­enda Efsta­dals 2.

Börnin eru öll í eftir­liti á Barna­spítala Hringsins.