Nýliðunarvandi ríkir hjá lífeindafræðingum og nú er svo komið að bregðast þarf við ef ekki á illa að fara. Tæplega fjörutíu prósent, 112 af 289, virkra félagsmanna í Félagi lífeindafræðinga (FL) er yfir sextíu ára aldri. Formaður FL segir að fyrst hafi verið varað við stöðunni fyrir tæpum áratug. „Vandinn er mjög margþættur, bæði hvað varðar orsakir og lausnir. Langvarandi ráðningabann var hjá ríkinu á ákveðnu tímabili sem olli því að lífeindafræðingar streymdu inn á almenna markaðinn. Heilu árgangana vantar því í störf hjá ríkinu,“ segir Alda M. Hauksdóttir, formaður FL. Samtímis hafi tækniframfarir verið miklar í geiranum og framlegð hvers starfsmanns aukist í samræmi við það. Það hafi valdið því að ráðamenn hafi látið viðvörunarorð um nýliðunarvanda og skort á mannafla sem vind um eyru þjóta. 

„Þó að ríkið nái öllum nýútskrifuðum til sín næstu fimmtán árin væri það enn í halla. Stærstur hluti þeirra sem eru yfir sextugu er í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og gætu hætt á morgun ef þeir kysu svo. Það tekur Háskóla Íslands sennilega um sjö til tíu ár að mennta fólk í staðinn,“ segir Alda. Hvað menntunina varðar eru einnig hindranir. Til að geta hlotið réttindi sem lífeindafræðingur þarf að ljúka starfsnámi sem er ólaunað. Þá vantar rannsóknarstofurnar oft fjármagn til að geta tekið á móti fleiri nemum þar sem ekki eru til nægilega margir leiðbeinendur. „Ríkið er alls ekki samkeppnishæft um launakjör við almenna markaðinn auk þess sem vinnutími og binding hjá stofnunum er ekki aðlaðandi fyrir yngri kynslóðina. Hún sættir sig ekki við að vinna alla daga, allar nætur og hátíðisdaga,“ segir Alda.

Verði ekkert að gert blasir við að ráða þurfi erlent starfsfólk. Sá möguleiki er tækur en Alda segir að tungumálaörðugleikar og mismunandimenntunarstig milli landa geti haft áhrif. Mikilvægt sé að lífeindafræðingur skilji bæði það sem fram fer á rannsóknarstofunni og sjúklinginn sjálfan.

„Það er nauðsynlegt að auka fjármagn til verklegs og klínísks náms lífeindafræðinga svo að að lágmarki fimmtán á ári útskrifist með diplómagráðu. Þá þyrfti einnig að setja hvata í háskólanámið til að liðka fyrir lausninni. Mögulega væri hægt að bjóða nemanda styrk í stað láns sýni hann eðlilega námsframvindu á meðan verið er að mæta brýnustu þörfinni,“ segir Alda. 

Einnig leggur hún til að diplómaárið verði styrkhæft og með því myndist hvatning fyrir þá sem lokið hafa BS-prófi til að fara í diplómanámið til að öðlast starfsréttindi sem lífeindafræðingur. Að endingu
þurfi að bæta starfskjörin hjá ríkinu.