Í kringum 40 kíló af plasti fundust í maga dauðs hvals sem rak að landi í Filipps­eyjum um helgina. Sjávar­líf­fræðingar sem fram­kvæmdu krufningu á hræi hvalsins, gás­hnalli nánar til­tekið, eru hrein­lega gapandi af undrun. 

Þeir segja að ljóst sé að of mikið plast í maga hvalsins hafi orðið til þess að hann fékk ban­vænt maga­sár. Í færslu sem sjávar­líf­fræðingarnir birtu á Face­book segir að í maganum hafi fundist sex­tán hrís­grjóna­plast­pokar, fjórir plast­pokar sem notaðir eru á banana­ekrum og fjöldi inn­kaupa­poka úr plasti. 

„Við höfum aldrei fundið jafn mikið plast í hvals­hræi,“ segja líf­fræðingar D'Bone Collector Museum. „Þetta er viður­styggi­legt. Stjórn­völd þurfa að grípa til að­gerða gegn þeim sem líta á hafið sem rusla­haug.“ 

Sjávar­líf­fræðingurinn Darrell Blatchley á og fer fyrir D'Bone Collector Museum sem hefur tekið að sér sams konar verk­efni áður fyrr. Hann segir að á þeim tíu árum sem þeir hafi sinnt slíku hafi líf­fræðingar safnsins krufið 57 hvali og höfrunga sem drepist höfðu vegna upp­safnaðs plasts í líkamanum.

Frétt The Guardian um málið.