Fjölmenni beið Báru Halldórsdóttur, sem hljóðritaði samtal sex þingmanna á Klaustur bar í síðasta mánuði, þegar hún gekk inn í Héraðsdóm Reykjavíkur nú klukkan þrjú. Hún gekk inn í dómsal nokkrum mínútum síðar og heilsaði mörgum. 

Á meðal þeirra sem eru dómsalnum eru Freyja Haraldsdóttir, sem er ein þeirra sem varð fyrir óviðeigandi ummælum þingmannanna sex. Enginn þingmannanna létu hins vegar sjá sig í héraðsdómi, en það eru þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokki sem láta á málið reyna fyrir dómstólum. 

Lögmaður fjórmenninganna, Reimar Snæfells Pétursson, fór einnig fram á að fá myndefni úr eftirlitsmyndavélum sem hann telur geta varpað skýrara ljósi á málið. Hann ítrekaði að mikilvægt væri að kalla eftir myndefninu hið fyrsta til þess að tryggja tilvist þess. Þannig sé til að mynda hægt að sjá hvernig Bára hafi haldið upptökunni leyndri frá þingmönnunum, hvaða aðferðum hún beitti og hversu sterkur ásetningur hennar var. Hann undirstrikaði mikilvægi þess að fá frekari vitneskju um málið. 

Fréttin hefur verið uppfærð