Fregnir herma að fimm séu látnir eftir að byssumaður hóf skothríð við skrifstofur dagsblaðsins Capital Gazette í Annapolis í Maryland í Bandaríkjunum. CNN greinir frá.

Vopnaður maður réðst inn á skrifstofur blaðsins og byrjaði að skjóta. Starfsmenn blaðsins óskuðu eftir hjálp á samfélagsmiðlum. Maðurinn var einn að verki.

Blaðamaðurinn Phil Davis hefur tjáð sig um árásina en hann var inni í húsinu þegar hún stóð yfir. „Það er ekkert ógnvænlegra, þegar þú felur þig undir skrifborðinu þínu, en að heyra fólk verða fyrir skotum og heyra svo byssumanninn hlaða byssuna á ný,“ skrifaði hann meðal annars.

Hann skrifaði síðast klukkan 20:11 að íslenskum tíma. „Ég er að bíða eftir því að verða yfirheyrður af lögreglu. Ég er öruggur og er ekki lengur inni á skrifstofunni.“

Fréttin hefur verið uppfærð.