Á föstudaginn, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, munu háskólar landsins, í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, vinna að því að fjölga færslum á Wikipedia sem fjalla um íslenskar konur.

„Við erum að bregðast við ákalli frá UNESCO og Wikimedia Foundation um að stuðla að betri kynningu og umfjöllun um konur á upplýsingasíðum Wikipedia. Þar er lítil umfjöllun og við ætlum hér á Íslandi að leggja áherslu á að skrifa um íslenskar konur,“ segir Laufey Axelsdóttir, stundakennari í kynjafræði við Háskóla Íslands, í samtali við Fréttablaðið í dag. 

Laufey segir að samkvæmt talningu UNESCO eru alls 12.152 greinar um Íslendinga og eru aðeins 19 prósent þeirra um íslenskar konur. Í átakinu verður sjónum sérstaklega beint að konum sem tengjast málefnasviðum UNESCO, þ.e. menntun, menningu, listum, fjölmiðlum, vísindum og upplýsingatækni.

„Við erum því að bregðast við þessu ákalli og reyna að stuðla að því að umfjöllun um konur verði meiri,“ segir Laufey.

Hún segir að þau hafi aðeins fengið verkefnið í hendurnar nýlega frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þau hafi síðan haft samband við Listaháskólann,  Háskólann á Akureyri og Háskólann í Reykjavík sem ætli báðir að taka þátt í verkefninu á föstudaginn.

„Á viðburðinum á Facebook erum við búin að setja inn lista af konum sem þátttakendur geta valið úr en svo er þeim frjálst að koma með eitthvað annað sem þeim langar að skrifa um. En okkur langar að hvetja þátttakendur til að skrifa um íslenskar konur, því það er af nógu að taka,“ segir Laufey.

Hún segir að fleiri samtök muni einnig taka þátt í viðburðinum og nefnir þar sem dæmi FKA og Félag fjölmiðlakvenna.

Álíka viðburðir víða um heim

Viðburðurinn verður í Háskóla Íslands í stofu 301 í Gimli en Laufey segir að fólki sé auðvitað frjálst að taka þátt líka heima hjá sér. Þá muni framlög þeirra þó ekki vera talið með þeim sem verður skilað af háskólunum. UNESCO mun síðan sjá um að taka saman tölur eftir að viðburði lýkur.

Fram kemur á heimasíðu UNESCO fyrir viðburðinn að álíka viðburðir verði haldnir á sjö öðrum stöðum víðs vegar um heim. Það er í París, Bangkok, Nýju-Delí, Almaty, Kaíró, Líma og Búenos Aires.

Hún segir að í fyrra, þegar viðburðurinn var fyrst haldinn, hafi um 300 þátttakendur verið í höfuðstöðvum UNESCO í París að skrifa inn færslur um konur á Wikipedia.

Þátttakendur eru beðnir að koma með eigin tölvur en hægt verður að velja nöfn kvenna af listum sem háskólarnir hafa tekið saman og eru aðgengilegir á viðburðinum á Facebook. Ítarlegri leiðbeiningar um hvernig fólk tekur þátt og annað má einnig finna á viðburðinum.