Hópur flóttafólks og mótmælenda gisti á Austurvelli í nótt. Mótmæli þeirra halda síðan áfram í dag. Með mótmælunum vonast fólkið eftir áheyrn stjórnvalda hvað varðar aðbúnað og málefni flóttafólks hér á landi.

Mótmælendur voru með teppi, svefnpoka og hitalampa á Austurvelli og voru að vakna þegar ljósmyndara Fréttablaðsins bar að um klukkan níu í morgun.

Mótmæla til 25. mars

Í dag er um að ræða sjöttu mótmælin á stuttum tíma sem hópur umsækjenda um alþjóðlega vernd, ásamt stuðningsfólki þeirra, stendur fyrir. Kröfur flóttafólksins eru alls fimm. Þær eru að öllum brottvísunum verði hætt samstundis, að hælisleitendum verði tryggður réttur til að vinna á meðan þau eru á landinu, að þeim verði tryggt öruggt húsnæði, jafn réttur til heilbrigðisþjónustu og að Ásbrú, þar sem mörg þeirra búa á meðan þau bíða úrlausnar mála sinna, verði lokað að þeim í stað þess tryggð búseta á höfuðborgarsvæðinu.  

Flóttafólkið sendi bréf til þriggja ráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar þann 20. febrúar síðastliðinn með formlegri beiðni um að fá að ræða kröfur sínar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur bréfinu enn ekki verið svarað.

Mótmælin hefjast í dag klukkan 17. Stefnt er á að mótmæla hvern einasta dag til 25. mars. Nánari upplýsingar um mótmælin er að finna hér.