Jarðskjálfti af stærðinni 4,1 reið yfir rúmlega sex kílómetra suður af Bláfjallaskála upp úr klukkan átta í kvöld. Nokkrir minni eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Náttúruvársérfræðingur segir að Veðurstofunni hafi borist fjöldi símtala vegna skjálftans en margir íbúar höfuðborgarsvæðisins fundu fyrir honum.

Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segist í samtali við Fréttablaðið ekki búast við frekari skjálftum og segir að sá sem hafi riðið yfir hafi verið á þekktu skjálftasvæði. Sömuleiðis séu engin merki um gosóróa.

Fréttin hefur verið uppfærð með staðfestum og yfirförnum tölum.