Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru allt annað en sáttir með mætingu ráðherra ríkisstjórnarinnar í óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi í dag.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, Innviðaráðherra, voru þau einu sem mættu í þingið til að svara spurningum þingmanna.
Sigmar Guðmarsson, þingmaður Viðreisnar, tók fyrstur til máls og sagði mætinguna afa baglega.
„Ég vil vekja athygli þingheims á því að þegar við förum hér til dagskrár og dagskrárliðurinn heitir óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra þá er ekki verra að það séu ráðherrar séu í salnum,“ sagði Sigmar og benti á að aðeins tveir ráðherrar af tólf hafi mætt.
„Mér finnst þetta bagalegt vegna þess að þetta er partur af upplýsingagjöf til þingsins og almennings. Þegar við erum með tólf ráðherra í ríkisstjórn hlýtur að vera hægt að gera kröfur um betri heimtur en að tveir ráðherrar mæti,“ sagði Sigmar.

Sigmar benti jafnframt á að Covid-faraldurinn sem ríður nú yfir hefur verið kallaður faraldur barnanna og sagði það afar bagalegt að barnamálaráðherra hafi ekki séð sér fært að mæta.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, sagði að aðstæður hafi verið með þeim hætti í dag að ekki var hægt að verða við því að fleiri ráðherrar mættu í óundirbúnar fyrirspurnar að þessu sinni.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar mættu hver að öðrum í pontu og létu óánægju sína í ljós. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, sagðist ætla koma athugasemdum þingmanna á framfæri og bætti við að reynt hafi verið að fá fleiri til að mæta en það gekk ekki að þessu sinni.

Minnir á andrúmsloftið fyrir hrun
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði þetta vera algjörlega óásættanlegt.
„Þetta minnir mig á það andrúmsloft sem var hér fyrir hrun þegar ráðherraræðið var hér algjört og við erum að sigla inn í sama anda. Það má ekki gerast,“ sagði Oddný.
„Ráðherrar starfa hér í umboði þingsins og við eigum höfum skyldum að gegna hér í eftirlitshlutverki með framkvæmdarvaldinu,“ bætti Oddný við.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, stakk upp á því að setja skjái við sætin hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar og þannig væri hægt að eiga við þá orðastað „hvort sem er úr skíðabrekkum eða af ströndinni.“
