Fjarvera Katrínar Jakobsdóttur við heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands hefur vakið heimsathygli. Katrín mun sækja ársþing Norrænu verkalýðshreyfingarinnar í Svíþjóð þegar Pence verður hér þann 4. september en það þykir fáheyrt að æðsti ráðamaður ríkis taki ekki á móti varaforseta Bandaríkjanna.

Fjölmiðlar á borð við The Washington Post, Time Magazine og Daily Mail taka allir málið fyrir. Þar er því velt upp að Katrín sé að hunsa varaforsetann og sniðganga stjórn Donalds Trump. Margir hafa þá gefið í skyn að Katrín sé að koma sér undan erfiðum aðstæðum því Pence mun hér meðal annars ræða setu Bandaríkjahers á Íslandi og hernaðar- og landfræðilegt mikilvægi landsins á norðurslóðum.

Pence verður fyrsti varaforseti Bandaríkjanna til að heimsækja Ísland síðan George H.W. Bush kom til Reykjavíkur árið 1983.

Katrín þvertók fyrir þetta í kvöldfréttum RÚV á þriðjudaginn og sagði heimsókn Pence hafa verið á töluverðu flakki á dagatalinu og því erfitt að skipuleggja sig út frá henni. Henni hafi hins vegar fyrir margt löngu verið boðið að halda aðalræðuna á ársþinginu.

„Þetta á sér enga fyrirmynd í sögu Íslands,“ segir sagnfræðingurinn Thor Whitehead í samtali við Associated Press. „Ég efast um að nokkur annar leiðtogi vestræns ríkis myndi ákveða að ávarpa ráðstefnu erlendis frekar en að taka á móti erlendum bandamanni.“ Pence verður þá fyrsti varaforseti Bandaríkjanna til að heimsækja Ísland síðan George H.W. Bush kom til Reykjavíkur árið 1983.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa þá gagnrýnt utanríkisráðherrann Guðlaug Þór Þórðarson fyrir að upplýsa ekki fyrr um ástæðuna fyrir komu Pence. Hann væri meðal annars hingað kominn til að ræða aðgerðir Atlantshafsbandalagsins til að bregðast við auknum umsvifum Rússa. Varaformaður utanríkismálanefndar og þingmaður Vinstri grænna hefur þá sagt að málið sé erfitt fyrir flokkinn.