Menntamál Reiknilíkan menntamálaráðuneytisins, sem enn er í mótun og varðar fjármögnun framhaldsskóla, miðar um of að því að allir skólar skuli eins. Líkanið bitnar á Menntaskólanum í Reykjavík, að sögn rektors skólans, Elísabetar Siemsen.

„Við höfum gert ýmsar athugasemdir. Þetta nýja líkan er okkur ekki hagfellt,“ segir Elísabet.

Rektor MR segir að húsnæði skólans sé þannig að sumar stofur séu litlar. Erfitt sé að uppfylla kröfur um hópastærð.

Í öðru lagi sé innan veggja skólans kennd latína og gríska þar sem viðmið um lágmarksfjölda eigi síður við. Svoleiðis nám sé dýrt en þurfi eigi að síður að vera fyrir hendi, enda ekki kennt í öðrum skólum.

Elísabet Siemsen rektor Menntskólans í Reykjavík
Fréttablaðið/Aðsend

Þá skili margir nemendur MR mun fleiri einingum en fjármögnun miðist við.

„Tilhneigingin hefur orðið sú, að mínu mati, að allir eigi að vera eins. Ef boðið er upp á sérstöðu er erfitt að fá hana metna fjárhagslega,“ segir Elísabet rektor.

Meginmarkmið stjórnvalda með nýju líkani er að gera rekstrarstarf skólanna gegnsærra.

„Þú færð jafnmikið greitt á haus, hvort sem mörgum eða fáum einingum er skilað. Það kemur illa við okkur,“ segir Elísabet.

95 prósent af útgjöldum skólans fara í laun og húsaleigu, að sögn rektors. Húsaleigan rennur aftur í vasa ríkisins.