„Ef maður framvísar tilhæfulausum reikningum og er að búa eitthvað til í því skyni að auðgast sjálfur, þá er maður að blekkja þann sem á að greiða reikninginn. Leiði slíkur reikningur til greiðslu er blekkingin búin að ná árangri og sá sem sér um útgreiðsluna er í villu. Það eru fjársvik.”

Þannig svarar Jón Þór Ólason, sérfræðingur í refsirétti, fyrirspurn Fréttablaðsins um hvort heimfæra megi vísvitandi rangar skráningar í akstursbókum þingmanna á auðgunarbrotaákvæði almennra hegningarlaga.

Jón Þór segir fjölmörg dómafordæmi til um svona tilvik og tekur dæmi af svæfingalækni sem gaf út tilhæfulausa reikninga fyrir aðgerðum sem höfðu aldrei verið framkvæmdar og innheimti hjá Tryggingastofnun. Læknirinn var ákærður fyrir að hafa blekkt Tryggingastofnun til að ofgreiða sér rúmar tvær milljónir með því að framvísa 154 röngum reikningum þar sem innheimtar voru greiðslur vegna eininga fyrir svæfingar hjá tannlækni og voru vegna starfa sem stofnuninni bar ekki að greiða fyrir. Hann var dæmdur fyrir fjársvik árið 2011 og fékk 12 mánaða fangelsisdóm.

Allt að 12 ára fangelsi fyrir fjársvik í opinberu starfi

Fjársvik geta varðað allt að sex ára fangelsi en Jón Þór bendir á að fremji opinber starfsmaður fjársvik þurfi einnig að líta til 138. gr. hegningarlaganna sem kveður á um allt að helmingi þyngri refsingu við hegningarlagabroti ef það er framið af opinberum starfsmanni og verknaðurinn teljist misnotkun á stöðu hans. 

Hver sem er getur framið fjársvik án tillits til stöðu sinnar, en til að refsiþyngingin komi til þarf að vera um opinberan starfsmann að ræða. 

Vakni grunur um refsiverða háttsemi alþingismanns eru þau rannsökuð af lögreglu. Auðgunarbrot eru rannsökuð hjá embætti Héraðssaksóknara.

Eru alþingismenn opinberir starfsmenn? 

Alþingismenn njóta friðhelgi að því leyti að samþykki Alþingis þarf til að sækja megi alþingismann til saka, nema hann hafi verið staðinn að glæp og  enn hefur ekki reynt á það fyrir íslenskum dómstólum hvort alþingismenn geti fallið undir ákvæði almennra hegningarlaga fyrir brot í opinberu starfi. 

Árni Johnsen var dæmdur í tveggja ára fangelsi árið 2003 fyrir fjárdrátt og umboðssvik í opinberu starfi. Hann var þingmaður á þeim tíma sem brotin voru framin en hafði sagt af sér þingmennsku þegar hann var ákærður.  Þótt dómurinn sýni að unnt er að sakfella mann fyrir brot sem framin voru í þingmannstíð hans, byggði dómurinn á því að hann hefði talist opinber starfsmaður vegna stöðu sinnar sem formaður bygginganefndarinnar og hefði sem slíkur getað skuldbundið opinbera sjóði um greiðslur. Ekki var tekin afstaða til þess með dóminum hvort alþingismenn teldust opinberir starfsmenn í skilningi almennra hegningarlaga. 

Starf þingmanna nýtur mikillar sérstöðu í samanburði við aðra starfsmenn og embættismenn ríkisins. Í ritinu Stjórnskipunarréttur eftir Björgu Thorarensen prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands segir: „Bæði eru upphaf og lok starfa ólík því sem gildir um allar aðrar starfsstéttir og starfsskyldur þeirra aðrar. Þeir taka ekki við fyrirmælum frá yfirboðurum sínum, í raun eru það kjósendurnir sem þeir fara með umboð fyrir.“

Í riti Bjargar kemur fram að litið hafi verið svo á að umrædd refsiákvæði taki einkum til þeirra starfsmanna ríkisins sem hafi „á hendi valdheimildir að lögum til að hafa afskipti af daglegu lífi almennings eða ráðstafa opinberum hagsmunum með beinum eða óbeinum hætti.“ Óvíst sé hins vegar að hvaða leyti þingmenn verði taldir fara með slíkt vald að brot þeirra teljist framin í opinberu starfi. 

Ákvæði almennra hegningarlaga

Fjársvik:

248. gr.  Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum. 

Brot framið af opinberum starfsmanni:

138. gr. Nú hefur opinber starfsmaður gerst sekur um refsilagabrot með verknaði, sem telja verður misnotkun á stöðu hans, og við því broti er ekki lögð sérstök refsing sem broti í embætti eða sýslan, þá skal hann sæta þeirri refsingu, sem við því broti liggur, en þó svo aukinni, að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.