Þórólfur Guðason segir ýmislegt réttmætt og gagnlegt í gagnrýni lækna Landspítalans um landamæraskimanir en annað beinlínis rangt

Ragnar Freyr Ingvarsson læknir sagði í gær að furðulegt væri Landspítalinn eigi að taka að sér að skima fríska ferðamenn við landamæri. Þessar ráðstafanir tækju ekki taka mið af þeirri þekkingu sem búið væri að afla síðastliðna vikur og mánuði; að Íslendingar séu líklegri til að smita en ferðamenn.

Þórólfur sagði á blaðamannafundi í dag að nauðsynlegt væri að halda skimunum áfram til að öðlast kunnáttu og þekkingum sem síðar muni leiða til þess að breyta um áherslur og nálgun.

„Eins og ég sagt áður þá viljum við halda áfram skimuninni út júlí.“

Fjárfesting til framtíðar

Ragnar sagði einnig að „það að LSH verji milljörðum í skimanir er augljós sóun á almannafé.“

Þórólfur segir rangt að milljarða kostnaður muni falla á Landspítalann vegna skimanna. „Þetta er náttúrlega tala sem er fjarri öllu lagi,“ sagði Þórólfur.

Einnig tók hann fram að allur kostnaður sem muni falla á Landspítalin felist einkum í því að uppfæra aðstöðu og tækjabúnað sýkla- og veirufræðideildar og til að auka mannafla og vaktavinnu.

„Hægt er að líta á það sem fjárfestingu til framtíðar.“

Sóttvarnarlæknir vísar í leyfisveitingu rannsóknarstofu Landspítalans og vinnslusamning Landspítalans um hlutverk þess í skimunum.
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

Ýmislegt réttmætt í gagnrýni lækna en annað beinlínis rangt

Þórólfur svaraði einnig fyrir ummæli Ragnars að hlutverk heilbrigðisstarfsfólks Landspítalans sé ekki að skima ferðamenn. Það væri með nóg á sinni könnu nú þegar. Þórólfur vísar þessu á bug og segir það víst hlutverk Landspítalans að sinna skimunum.

„Í leyfisveitingu rannsóknarstofu Landspítalans í sýkla- og veirufræði frá 2010 er kveðið sérstaklega á um að þessar rannsóknarstofu hafi hlutverki að gegna í sóttvörnum fyrir landið allt. Í vinnslusamningi Landsspítalans og Sóttvarnalæknis frá 2015 er sérstaklega kveðið á um að rannsóknarstofurnar á Landsspítalanum beri að stunda skimun fyrir smitsjúkdómum sem hafi þýðingu fyrir almannaheill samkvæmt nánari fyrirmælum sóttvarnalæknis. Þannig að það er alrangt að halda því fram að það sé ekki hlutverk Landspítalans eða rannsóknastofanna þar að taka þátt í skimunum og taka þátt í þessum aðgerðum sem við erum nú að grípa til. Þannig að það er hægt að segja að ýmislegt í gagnrýni lækna á Landspítalanum er réttmætt og gagnlegt en annað er beinlínis rangt.“