Kennsla á neti er krefjandi fyrir bæði kennara og nemendur, gildir þá einu hvort um er að ræða rafræna kennslu, fjarnámskennslu, blandaða kennslu eða önnur form netkennslu,“ segir Kolbrún Friðriksdóttir, doktor í annarsmálsfræðum og aðjunkt í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands.
Kolbrún hefur langa reynslu af kennslu íslensku sem annars máls á netinu og heldur í dag vinnustofu kennara þar sem hún fjallar um leiðir til að hvetja og virkja nemendur í netnámi. Hún segir heimsfaraldurinn hafa breytt miklu þegar kemur að netkennslu á ólíkum skólastigum.
Síðustu tvö ár hefur nám í framhalds- og háskólum að miklu leyti farið fram í netnámi. Menntastofnanir þurftu á stuttum tíma og með litlum fyrirvara að breyta tilhögun náms í mörgum tilfellum.
„Ef ég tek eigin kennslu í HÍ sem dæmi urðu miklar breytingar á kennsluháttum við upphaf faraldursins. Kennslu sem hafði verið skipulögð með staðnám í huga þurfti að breyta í rafræna kennslu með mjög skömmum fyrirvara. Kennsla, fyrirlestrar og umræðutímar fóru þannig fram á neti um skeið með hjálp nýjustu tækni. Að sama skapi varð mikil breyting á námsumhverfi nemenda,“ segir hún.
Í þeim tilvikum sem um fjarnámskeið er að ræða segir Kolbrún námsefnið sjálft, kennslufræði og skipulag allt þætti sem skipti miklu máli í að virkja nemendur í fjarnámi. „Fjarnámskeið krefjast sérstakrar kennslufræði sem miðar að því að virkja og hvetja nemendur áfram í netnáminu og kalla einnig á sjálfsaga, skipulagshæfni og áhuga nemenda á viðfangsefninu.“
Staðnám segir Kolbrún ólíkt fjarnámi býður upp á námssamfélag nemenda og kennara sem ýtt geti undir nám, námsáhuga og virkni. „Búast má við að félagslegi þátturinn sé einn þeirra þátta sem kennarar í fjarnámskennslu gætu haft áhyggjur af.“