Frá 1. janúar verður starf­semi Land­spítala fjár­mögnuð í sam­ræmi við um­fang veittrar þjónustu. María Heimis­dóttir, for­­stjóri Sjúkra­­trygginga Ís­lands, Svan­­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra og Páll Matthías­­son for­­stjóri Land­­spítalans undir­­­rituðu sam­komu­lag þess efnis í dag. Um er að ræða stærsta samningur um kaup á heil­brigðis­þjónustu sem gerður hefur verið hér á landi. Unnið er að inn­leiða þjónustu­tengda fjár­mögnun á Sjúkra­húsinu á Akur­eyri.

Frá ára­mótum verður því fjár­mögnun Land­spítala að stórum hluta þjónustu­tengd, það er klíníski hluti starf­semi hans, en verk­efni sem til að mynda á sviði kennslu og vísinda, stofn­kostnaðar og meiri­háttar við­halds verða á­fram fjár­mögnuð með föstum fjár­veitingum.

„Þessi breyting er bylting, jafnt fyrir spítalann og fjár­veitingar­valdið. Mark­miðið er að fjár­mögnun spítalans sé sann­gjörn og raun­hæf, í sam­ræmi við þjónustuna sem sjúkra­húsið veitir og skýr mark­mið fjár­veitingar­valdsins um magn hennar og gæði“ sagði Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra við undir­ritun samningsins.

Byggir á al­þjóð­legu sjúk­dóms­flokkunar­kerfi

Sam­kvæmt vef Stjórnar­ráðsins byggir þjónustu­tengd fjár­mögnun á því að flokkuð er þjónusta og fram­leiðsla spítalans sam­kvæmt DRG, al­þjóð­legu flokkunar­kerfi sjúk­dóma. Kerfið lýsir um­fangi þjónustu sem liggur að baki, til dæmis vegna á­kveðinna að­gerða eða með­ferðar við til­teknum sjúk­dómum og er það mælt í svo­kölluðum DRG-einingum. Greiðslur miðast við fjölda eininga sem eru á föstu verði.

„Þetta er sannar­lega stórt skref í ís­lenskri heil­brigðis­þjónustu og mikil­vægur liður í að auka gegn­sæi og fyrir­sjáan­leika í fjár­veitingum og þar með í starf­semi og rekstri heil­brigðis­stofnana. Land­spítali á heiður skilinn fyrir þann vandaða undir­búning sem þar hefur þegar farið fram og við hlökkum til á­fram­haldandi sam­starfs,“ sagði María. Páll fagnaði undir­rituninni sem hann segir fela í sér mikla breytingu á hluta rekstur Land­spítalans sem starfs­fólk hans sé spennt að taka þátt í.

For­stjóri Land­spítalans fagnar sam­komu­laginu.
Mynd/Stjórnarráðið