Bjarni Benediktsson kynnti fjárlagafrumvarp 2023 í gær. Heilbrigðismálin eru sem fyrr langhæsti útgjaldaliðurinn. Meira en þrjár af hverjum tíu krónum fara í útgjöld til málaflokksins. Bjarni segir árangur íslenska heilbrigðiskerfisins góðan á ýmsum sviðum en einnig séu áskoranir, biðlistar og óboðleg vistun sjúklinga sem dæmi.

„Ég tel að við munum ná mun meiri árangri ef við aukum samstarf opinberra aðila við einka­aðila.“

Bjarni segir helstu umbætur undanfarið tengjast auknu einkaframtaki. Í liðskiptaaðgerðum hafi samstarf við einkaaðila aukist og gefist mjög vel. „Sama á við um hjúkrunarheimilin þar sem margir sjálfstætt starfandi hafa náð frábærum árangri.“ segir Bjarni.

Þegar Svandís Svavarsdóttir var heilbrigðisráðherra héldu Vinstri græn fast við ríkisrekstur. Nú hafa orðið ráðherraskipti, Willum Þór Þórsson heldur um stjórnartauma heilbrigðismála í Framsóknarflokknum. Spurður hvort sundrung sé meðal ríkisstjórnarflokkanna hvað varðar áform um aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustu svarar Bjarni:

„Ég vona að svo sé ekki.“

Bjarni segir miklu varða að heilbrigðiskerfið nái fleiri samningum við einkaaðila.

„Ríkið á að einbeita sér að rekstri þjóðarspítalans sem og stærri og þyngri málaflokkum sem ekki er skynsamlegt að deila milli aðila.“

Gert er í fjárlagafrumvarpinu ráð fyrir auknu fé til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa. Munar fimm milljörðum frá fjárlögum síðasta árs. Á sama tíma breytast framlög til sjúkrahúsa lítið.