Sértækar aðgerðir á sviði ríkisfjármála drógu úr samdrætti landsframleiðslunnar um að lágmarki 100 milljarða. Þetta kom fram á blaðamannafundi fjármála- og efnahagsráðuneytisins síðdegis í gær þar sem kynnt var fjármálaáætlun fyrir 2022 til 2026.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir þetta ótvírætt merki um að viðspyrnu- og uppbyggingaraðgerðir yfirvalda hefðu skilað árangri.

Þrátt fyrir það sé mikið og viðvarandi vandamál fram undan, hið stærsta sem samfélagið stendur frammi fyrir, sem er atvinnuleysi. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi við lok áætlunartímabilsins verði á bilinu fjögur til fimm prósent, nokkuð meira en meðalatvinnuleysi síðastliðinna áratuga.

„Þetta þarf ekki að verða svona. Við getum gert betur og ákvarðanir okkar í dag eru til þess fallnar að hafa áhrif á framtíðina,“ segir Bjarni í samtali við Fréttablaðið, bjartsýnn þrátt fyrir langvinn áhrif faraldurs sem þjóðin stendur frammi fyrir.

Næstu árin er gert ráð fyrir að hagkerfið taki að vaxa kröftuglega að nýju, en meginmarkmið stjórnvalda í áætluninni eru að styðja við vöxt efnahagsins og stöðva skuldasöfnun.

„Ég tel að við höfum nú þegar á tiltölulega skömmum tíma haft mjög mikil áhrif til góðs. Við fórum fram úr öllum spám á síðasta ári vegna þess að við erum með áherslur sem skila árangri og með réttum áherslum er áfram hægt að fara fram út væntingum.“