„Þetta er í sjötta sinn sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur lýsir stefnu sinni fyrir komandi þingár og í sjötta sinn sem við heyrum sama gamla innantóma loforðaflauminn.“

Á þessum orðum hófst ræða Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata, á Alþingi í kvöld, en þar gagnrýndi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur harðlega. „Ég kalla hann ekki innantóman af neinni léttúð, þvert á móti hef ég raunverulegar áhyggjur af neikvæðu afleiðingunum sem innistæðulaus loforð hafa á lýðræðið og á traust fólks gagnvart Alþingi.“ bætti hún við.

Halldóra setti út á aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðis- heilbrigðis- og loftlagmálum, og hélt því fram að í öllum málaflokkunum væri að finna fjölda svikinna loforða. „Svo lengi að það er ekkert mark á þessum loforðum takandi. Hvers vegna í ósköpunum ættum við að treysta þeim núna?“ spurði Halldóra.

Þá vék Halldóra sér að Íslandsbankasölunni. „Þjóðinni var skiljanlega misboðið þegar kom í ljós hverjir keyptu og hversu mikið milliaðilar græddu á sölunni“ sagði Halldóra og bætti við „Enda telja rúmlega 88% þjóðarinnar að óeðlilegir viðskiptahættir hafi átt sér stað.“

Hún minnist tilkynningar Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um að ekki yrði ráðist í frekari sölu að sinni. „En forseti, fjármálaráðherra ætlar bara samt að klára að selja bankann. Jafnvel þótt skýrsla Ríkisendurskoðanda um framkvæmd sölunnar liggi ekki fyrir. Jafnvel þótt ekkert uppgjör hafi enn átt sér stað um það að fjármálaráðherra hafi selt föður sínum ríkiseign á útsölu, í útboði sem almenningur fékk ekki að taka þátt í.“ sagði Halldóra sem fullyrti að Bjarna væri alveg sama um traust og gagnsæi í málinu.

„Fjármálaráðherra er alveg sama um traust og gagnsæi. Fjárlögin sýna svart á hvítu hversu lítið er að marka yfirlýsingar ráðherranna – og hversu litla virðingu fjármálaráðherra ber fyrir þjóðinni.“